Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

Innlögnum á SAk fækkaði um 15%

Mynd: Þorgeir Baldursson.

Fram kemur í starfsemitölum Sjúkrahússins á Akureyri að dvalardagar á tímabilinu janúar til júlí hafi verið rúmlega 15.100, en það er um 15% fækkun miðað við sama tíma í fyrra. Sjúklingum sem hafa þurft að leggjast inn hefur fækkað um 10%. Jafnframt styttist dvöl sjúklinga og er meðalfjöldi dvalardaga á áðurnefndu tímabilil 4,5 dagar, samanborið við 4,7 daga á sama tímabili í fyrra. Færri erlendir ferðamenn leituðu til sjúkrahússins fyrstu sjö mánuði þessa árs en í fyrra. 

Hér eru helstu punktar úr þessum starfsemitölum Sjúkrahússins á Akureyri fyrir janúar til júlí á þessu ári: 

  • Bráðainnlagnir eru 76,3% af innlögnum á sjúkrahúsið.

  • Að meðaltali eru um fimm til sex sjúklingar inniliggjandi á hverjum tíma sem hafa lokið meðferð og bíða eftir endurhæfingu eða plássi á hjúkrunarheimili.
  • Tæplega 7.700 einstaklingar hafa fengið þjónustu á göngudeild og þar af 1.410 vegna krabbameinslyfjagjafar, samanborið við 1.270 lyfjagjafir á sama tíma í fyrra og er stöðug aukning í þeirri þjónustu.

  • Fjöldi samskipta á bráðamóttöku og göngudeild bráðamóttöku er svipaður á umræddu tímabili á þessu ári og sama tíma í fyrra, 10.709 í ár á móti 10.668 í fyrra. Árin þar á undan voru þau nokkuð færri á sama tíma, 9.517 árið 2022, 9.503 árið 2021 og 8.104 árið 2020. 
  • Biðtími eftir því að hitta lækni á bráðamóttöku er nú um 44 mínútur sem er lengri biðtími en viðmið sjúkrahússins segir til um, sem 40 mínútna bið eftir lækni.

  • Alls voru gerðar 1.400 skurðaðgerðir í janúar til júlí, aðeins færri en á sama tímabili í fyrra þegar 1.500 aðgerðir voru framkvæmdar. Tæplega 33% aðgerða voru bráðaaðgerðir. Gerviliðaaðgerðir voru 178 á móti 190 gerviliðaaðgerðum á sama tímabili í fyrra.

  • Myndgreiningarannsóknir (án brjóstamynda) voru 23.777, að meðaltali um 112 rannsóknir á dag sem er sambærilegt og verið hefur. Sambærileg starfsemi er á rannsóknadeild og lífeðlisfræðideild eins og í fyrra.

  • Fæðingar voru fleiri á þessu tímabili í ár en í fyrra, 236 börn á þessu ári á móti 229 börnum á sama tíma í fyrra. 

  • Töluverð fækkun er í komum og innnlögnum ósjúkratryggðra miðað við sama tímabil í fyrra. Tæplega 400 hafa leitað á bráðamóttökuna og 54 hafa verið lagðir inn, en í fyrra höfðu 69 einstaklingar verið lagðir inn og um 460 einstaklingar leitað á bráðamóttökuna.