Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

Færðu barnadeild SAk leikföng og 210.000 kr.

Aðalheiður Guðmundsdóttir, deildarstjóri barnadeildar Sjúkrahússins á Akureyri, ásamt þeim barnanna úr Síðuskóla sem afhentu deildinni pakka. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Nemendur 5. bekkjar Síðuskóla komu færandi hendi á barnadeild Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) fyrir helgi. Annars vegar afhentu þeir deildinni nokkur leikföng að gjöf, eina Play Station tölvu, nokkra leiki í hana fyrir mismunandi aldurshópa og þroskaleikföng, og hins vegar 210.000 krónur í peningum, til kaupa á vigt fyrir nýbura.

Krakkarnir héldu síðla vetrar góðgerðar- og menningarkaffihús í matsal skólans við miklar vinsældir. Akureyri.net leit við á sínum tíma og sagði frá – sjá hér.

Selt var inn á kaffihúsið og einnig höfðu krakkarnir til sölu ýmsa listmuni sem þeir höfðu útbúið sjálfir. Ákveðið var fyrir samkomuna að allur ágóði rynni til barnadeildar SAk og vakti heimsóknin á deildina mikla lukku. Aðalheiður Guðmundsdóttir, deildarstjóri barnadeildarinnar veitti gjöfum barnanna viðtöku og þakkaði innilega fyrir rausnarskapinn.

Hópurinn úr Síðuskóla ásamt Aðalheiði Guðmundsdóttur, deildarstjóra barnadeildar sjúkrahússins.