Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

Erlendum ferðamönnum á bráðamóttöku fækkar

Sjúkrahúsið á Akureyri hefur birt yfirlit um starfsemina í tölum fyrir fyrstu átta mánuði ársins. Dvalardögum fækkar um 15% frá fyrra ári og sjúklingum sem leggjast þurfa inn fækkar um 10%. Dvöl hvers einstaklings að meðaltali styttist og er meðaldvöl nú 4,5 dagar, en var 4,7 dagar í fyrra. Enn fækkar erlendum ferðamönnum sem leita til bráðamóttökunnar.
 
  • Dvalardagar á tímabilinu janúar til og með ágúst voru 17.086, sem er 15% fækkun miðað við sama tíma í fyrra. Sjúklingum sem þurfa að leggjast inn fækkar um 10% á sama tímabili. Dvöl hvers sjúklings að meðaltali styttist og er á áðurnefndu tímabili 4,5 dagar á móti 4,7 dögum í fyrra.
  • Flestir sjúklinganna eru lagðir inn í bráðainnlögn, en þær eru um 77,6% af innlögnum.
  • Að meðaltali eru um fimm til sex sjúklingar inniliggjandi á hverjum tíma sem hafa lokið meðferð og bíða eftir endurhæfingu eða plássi á hjúkrunarheimili.
  • Tæplega 8.250 einstaklingar hafa fengið þjónustu á göngudeild og þar af 1.563 vegna krabbameinslyfjagjafar, samanborið við 1.454 lyfjagjafir á sama tíma í fyrra og er stöðug aukning í þeirri þjónustu.
  • Á bráðamóttöku og göngudeild bráðamóttöku eru svokölluð samskipti álíka mörg nú og í fyrra, 12.103 á þessu ári, en voru 12.164 á sama tíma í fyrra.
  • Biðtími eftir því að hitta lækni á bráðamóttöku er nú um 46 mínútur en viðmið SAk er um 40 mínútna bið eftir lækni.
  • Skurðaðgerðir voru samtals 1.545 sem er aðeins minna en í fyrra þegar 1.670 aðgerðir voru gerðar yfir sama tímabil. Tæplega 34% aðgerða voru bráðaaðgerðir og gerviliðaaðgerðir 191 á móti 206 gerviliðaaðgerðum í fyrra.
  • Gerðar voru 26.885 myndgreiningarannsóknir (án brjóstamynda), eða að meðaltali um 110 rannsóknir á dag sem er sambærilegt og verið hefur.
  • Rannsóknum á rannsóknadeild hefur fækkað aðeins, en rannsóknir á lífeðlisfræðideild eru álíka margar og verið hefur undanfarin ár.
  • Á fyrstu átta mánuðum ársins fæddust 264 börn á Sjúkrahúsinu á Akureyri samanborið við 270 börn á sama tíma í fyrra.
  • Töluverð fækkun er í komum og innnlögnum ósjúkratryggðra miðað við sama tímabil í fyrra. Bráðamóttakan hefur sinnt 515 ósjúkratryggðum einstaklingum og 76 hafa verið lagðir inn, en í fyrra höfðu verið lagðir inn 93 einstaklingar og um 600 einstaklingar leitað á bráðamóttökuna.