Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

Dagur sjúkrahússins á Glerártorgi

Það var mikið fjör á SAk-deginum á á Glerártorgi í fyrra. Jafnvel jólasveinarnir létu athuga blóðþrýstinginn hjá sér, þá nýkomnir til byggða. Mynd: BB

Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) ásamt starfsfólki sjúkrahússins standa fyrir hátíð á Glerártorgi í dag, laugardag, milli kl. 14:00 og 16:00. Slík hátíð hefur verið árviss viðburður á Glerártorgi frá stofnun hollvinasamtakanna fyrir 10 árum, nema hvað hún féll niður 2020 og 2021 vegna Covid-faraldursins.

„Starfsfólk sjúkrahússins stendur fyrir mælingu á blóðþrýstingi, súrefnismettun og púlsi. Félagsmenn kynna Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri og skrá nýja félaga. Þá býðst smáfólkinu að koma með uppáhaldsleikfangið sitt í læknisskoðun. Að sjálfsögðu verður líka bangsa- og dúkkuhorn á staðnum,“ segir í tilkynningu frá samtökunum.

Þessir ungu drengir fengu Sigurð E. Sigurðsson, þáverandi framkvæmdastjóra lækninga á SAk, til að kanna ástandið á góðum vini sínum á degi sjúkrahússins á Glerártorgi á síðasta ári.

Almannaheillafélag

„Hollvinasamtök SAk eru almannaheillafélag og framlög til Hollvinasamtaka SAk eru frádráttarbær frá skattstofni gefenda, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða einstaklinga,“ segir í tilkynningunni. „Árgjaldið er 6.000 krónur og er það sá grunnur sem Hollvinir SAk byggja starfsemi sína á. Þar sannast hið fornkveðna að margt smátt gerir eitt stórt. Hollvinir SAk eru nú vel á þriðja þúsund talsins en markmiðið er að fjölga þeim verulega á næstu mánuðum. Hollvinir SAk hvetja sem flesta til að leggja leið sína á Glerártorg á laugardaginn og taka virkan þátt í dagskránni.“