Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

Aldrei fleiri sótt um sérnámsgrunnstöður

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Alls sóttu 30 sérnámsgrunnslæknar um pláss á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) fyrir námsárið 2024-2025 og hafa aldrei verið fleiri. Þetta kemur fram á vef SAk.

Sérnámsgrunnsárið er fyrsti hluti formlegs sérnáms lækna á Íslandi og tími reynslu og náms fyrir nýútskrifaða lækna. Starfsstöðvarnar eru samþykktar af mats- og hæfisnefnd sem fullgildar námsstöðvar. Nú stendur yfir vinna við niðurröðun vegna umsókna sérnámsgrunnslækna fyrir árin 2024-2025. 

„Við höfum síðustu ár unnið markvisst að því að laða að sérnámslækna og sérnámsgrunnslækna. Til að mynda létum við gera kynningarmyndbönd sem við höfum notað í tengslum við viðburði og vísindaferðir og sýnt á Læknadögum. Þar reyndum við að gefa námslæknum innsýn inn í daglegt starf á SAk og segja frá lífsgæðum á Akureyri, en eins og við öll vitum sem hér búum að hér er allt til alls, frábær tækifæri til útivista og stutt í allt,“ segir Laufey Hrólfsdóttirdeildarstjóri mennta- og vísindadeildar.

Hér má sjá kynningarmyndböndin fyrir sérnám- og sérnámsgrunn á SAk: https://www.youtube.com/playlist?list=PLOJNW9nwalTRr419z2GO1yTONygZQ0cG5

Mennta- og vísindadeildin hefur skipulagt kynningu fyrir verðandi sérnámsgrunnslækna á haustin þar sem boðið er í mat og drykk og námstækifærin á SAk kynnt. Hannes Petersen kennslustjóri á SAk hefur séð um kynninguna: „SAk býður læknum og læknanemum hæfilega stórt starfsumhverfi þar sem þeir geta nálgast fjölbreytt viðfangsefni undir góðri handleiðslu. Á sama tíma fá þeir gnótt af tækifærum til að stíga sín eigin spor á öruggan hátt.“

Viðbótarkjör

Sjúkrahúsið býður góð kjör og reynir að aðstoða námslækna við að finna húsnæði,“ segir á vef SAk. „Við bjóðum upp á ákveðin viðbótarkjör eins og húsnæðisstyrk, flutningsstyrk og fasta yfirvinnu fyrir sérnámslækna og sérnámsgrunnslækna sem taka tímabil á SAk. Við vitum að það getur verið erfitt að flytja sig um set og viljum því styrkja námslækna sem hafa áhuga á því að koma norður,“ segir Laufey.