Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

Akureyrarklíníkin: Fjármagn til reiðu í ár

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, segir ekkert því til fyrirstöðu að rekstur miðstöðvar um ME sjúkdóminn við Sjúkrahúsið á Akureyri  (SAk) hefjist.  Rekstur miðstöðvarinnar, sem fékk vinnuheitið Akureyrarklíníkin, muni rúmast innan fjárveitingaramma stofnunarinnar. Þetta kemur fram í skriflegu svari ráðherra við fyrirspurn Akureyri.net.

  • Hjónin Freyja Magnúsdóttir og Pétur Þór Jónasson skoruðu á stjórnendur SAk að hrinda í framkvæmd ákvörðun heilbrigðisráðherra, sem tilkynnt var fyrir tæpu ári, um að koma á fót þekkingar- og ráðgjafarmiðstöð í þágu ME-sjúklinga við stofnunina „Þörfin er hrópandi,“ sögðu þau í grein sem birtist á Akureyri.net í.
  • Forstjóri SAk, Hildigunnur Svavarsdóttir, svaraði því til að mikill skilningur væri þar á bæ á mikilvægi þjónustu við fólk sem glímir við ME sjúkdóminn. Sá böggull fylgdi hins vegar skammrifi að ekkert fjármagn hafi fylgt þeirri ákvörðun ráðherra á síðasta ári að koma á fót þekkingar- og ráðgjafarmistöð á Akureyri um sjúkdóminn.

Akureyri.net spurði ráðherra um gang málsins; hvers vegna fjármagn hefði ekki fylgt ákvörðuninni og hvort til stæði að útvega fé í verkefnið.

Skriflegt svar hefur borist frá ráðherra. Þar segir:

„Frá því að ég fól Sjúkrahúsinu á Akureyri og Heilbrigðisstofnun Norðurlands að hefja undirbúning að stofnun miðstöðvar um ME sjúkdóminn á síðasta ári þá hefur verið ágætis gangur í verkefninu. Sérstakt teymi í þjónustu við þá sem glíma við ME sjúkdóminn hefur verið að taka á sig mynd innan spítalans og hefur bæði þarfagreining á mönnun teymisins og kostnaðargreining á rekstri þess farið fram.

Það er ekkert því til fyrirstöðu að fara af stað. Rekstur miðstöðvarinnar mun rúmast innan fjárveitinga ramma sjúkrahússins á þessu ári.“

Fréttir Akureyri.net í síðustu viku:

_ _ _

HVAÐ ER ME-SJÚKDÓMURINN?

ME (myalgic encephalomyelitis) veldur langvarandi vöðvaverkjum og bólgum í heila eða mænu. Vitað er að ýmsar sýkingar geta valdið ME sjúkdómnum. Hluti sjúklinga sem veiktust af Akureyrarveikinni þegar hún geisaði fyrir 75 árum þróaði með sér ME.

Fjöldi fólks glímir við ME í kjölfar Covid heimsfaraldursins.

Hjónin Freyja og Pétur sögðu m.a. í greininni sem vísað var til hér að ofan:

  • Við getum staðhæft að [sjúkdómurinn] er flókinn, þungbær og engin leið að lýsa honum öðruvísi en svo að hann er andstyggilegur þegar hann er sem verstur. Í hugum margra er sjúkdómurinn tengdur Covid og þá talað um „post-Covid“ eða afleiðingar Covid. Málið er þó flóknara en svo að sjúkdómurinn sé fyrst nú að koma fram. Hann er hins vegar núna að verða býsna algengur og tilfellum fer stöðugt fjölgandi sem hlýtur að vera mikið áhyggjuefni.
  • Sjúkdómurinn leggst mjög misþungt á einstaklinga en í flestum tilvikum eru afleiðingarnar þó alvarlegar og bataferlið tekur langan tíma. Í verstu tilvikum einhver ár.
  • Megin einkenni hans er gríðarlegt orkuleysi, allt yfir í algera örmögnun. Slíkt ástand getur varað í vikur og mánuði. Sjúklingurinn verður ofurnæmur, þolir illa lykt, birtu og hljóð. Þeir sem verst eru haldnir verða algerlega öðrum háðir við daglegar athafnir. Það er auðvelt að átta sig á því að vanmáttur fólks er alger við slíkar aðstæður þar sem öll lífsgæði eru horfin, þar sem vonleysið tekur yfirhöndina og erfitt verður að sjá ljósið í myrkrinu.