Fara í efni
Sjúkrahúsið á Akureyri

2024 – Margt jákvætt og skemmtilegt í fréttum

Það er oft sagt að bara séu neikvæðar fréttir í fjölmiðlum. Sannarlega ekki hér á Akureyri.net. Þar voru sagðar margar skemmtilegar og jákvæðar fréttir á árinu. Hér er brot af því besta. 

Fyrst ber að nefna flott framtak sem við fjölluðum um í apríl,  Facbookhópinn 100 ferðir á Fálkafell.  Þessi Facebook hópur naut mikilla vinsælda á árinu en Heiðrún Jóhannsdóttir, stofnaði hópinn sem varð til þess að ekki bara hún heldur margir aðrir Akureyringar drifu sig út að ganga í öllum veðrum  á fellið á árinu. 

Annað flott heilsutengt framtak kom frá  Inga Torfa Sverrisson og Lindu Rakel Jónsdóttir, sem hafa hjálpað fjölda fólks að hugsa betur um heilsuna í gegn um fyrirtæki sitt ITS Macros, en þau settu á markað nýtt heilsuapp í október sem kallast LifeTrack. Appið er að miklu leyti unnið í heimabyggð og hjálpar fólki að halda utan um heilsutengd markmið. 

Það var mikið líf og fjör í Facebook hópnum '100 ferðir í Fálkafell" - Skjáskot af Facebook

 

Örverur sem brjóta niður plast

Við fjölluðum um góða reynslu af símafríi í grunnskólum Akureyrar en samræmdar símareglur tóku gildi í í grunnskólum bæjarins í upphafi þessa skólaárs. 

Sú gleðifrétt var sögð að Tónlistarskólinn á Akureyri tók að sér tónmenntakennslu fyrir miðstig í skólum Akureyrar frá og með síðasta hausti. Um er að ræða nýtt verkefni sem tryggir að allir krakkar í 5.-7. bekk fá tónlistarkennslu með fjölbreyttu sniði. Akureyri.net settist niður með Hjörleifi Erni Jónssyni, skólastjóra Tónlistarskólans af þessu tilefni.

Þá sögðum við frá merkilegri uppgötvun Radek B. Dudziak, sem er meistaranemi við auðlindadeild Háskólans á Akureyri en hann fann örverur í íslenskri náttúru, nánar tiltekið á Akureyri, sem virðast hafa þann eiginleika að geta brotið niður plast. Hann vinnur nú að því að finna leiðir til að nýta þessar örverur til hreinsunar og niðurbrots á nokkrum algengum plastefnum.

Radek er 44 ára og flutti til Íslands frá Póllandi árið 2001. Hann vinnur nú að því að finna leiðir til að nýta þessar örverur til hreinsunar og niðurbrots á nokkrum algengum plastefnum.

Kynlífstæki, kaffi og súrdeigspítur

Margar skemmtilegar nýjungar dúkkuðu upp á árinu á Akureyri. Til dæmis hófu Hopp leigubílar starfssemi sína í bænum og kynlífstækjaverslunin Blush opnaði á Glerártorgi í mars. Þá opnaði Norðurhjálp nytjamarkað á árinu að Dalsbraut 1 sem hefur heldur betur slegið í gegn.  Þá opnuðu nokkrir nýir matsölustaðir  á árinu í bænum, til að mynda Malik í miðbænum sem býður upp á súrdeigspítur, og Fjaka á Amtsbókasafninu, þar sem hægt er að fá vöfflufranskar sem er nýjung hér á landi. Eins opnaði  nýtt kaffihús við Ráðhústorg í haust, Kaffipressan en þar er áherslan lögð á V60 kaffi eða hæga uppáhellingu. Loks var Iðunn mathöll opnuð á Glerártorgi en á árinu voru nokkur viðtöl tekin við veitingamenn og rekstraraðila þar. Meðal annars var rætt við væntanlega rekstraraðila tveggja staða í mathöllinni sem annars vegar bjóða upp á mexíkanskan mat og hins vegar franskt bistro. 


Kaffiunnendur kættust á árinu þegar Ármann Atli Eiríksson opnaði kaffihús við Ráðhústorgið sl. haust. 

LifeTrack smáforritið leit dagsins ljós á árinu en hjónin  Linda Rakel og Ingi Torfi stóðu á bak við það en appið var meir og minna unnið í heimabyggð. Appið kennir notendum að halda utan um sína daglegu næringu og hafa sínar orkutölur nokkuð á hreinu, hvort sem markmiðið er að styrkja sig, þyngja eða létta, og/eða öðlast betri orku.

Mörg góðverk á árinu

Margir létu gott af sér leiða á árinu. Mömmur og möffins færðu fæðingardeildinni á Sjúkrahúsinu á Akureyri eina og hálfa milljón að gjöf að lokinni möffins sölu um verslunarhelgina. Metfjöldi perlaði armbönd fyrir Kraft, félag stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, á viðburði í Háskólanum á Akureyri í febrúar. Þá gaf Oddfellow stúkan Rán tvo frísskápa á Amtbókasafnið en um er að ræða ísskápa þar sem hver sem er má ná sér í mat án þess að greiða fyrir. Skáparnir hafa notið mikilla vinsæla en hver sem er getur gefið mat í skápana og hver sem er getur tekið úr ísskápunum.

Þá er gaman að segja frá góðvild tveggja stúlkna sem jafnframt eru starfsmenn Securitas ,  þær Þórdís Anna Hreiðarsdóttir og Guðrún Mist Þórðardóttir. Þær unnu mikið góðverk í sumar þegar þær leituðu  týndra farþega á skemmtiferðarskipi  sem lá við bryggju á Akureyri í sínum frítíma. Um var að ræða hjón á níræðisaldri sem vantaði um borð þegar verið var að leysa landfestar. Skjót viðbrögð og hjálpsemi stúlknanna varð til þess að gömlu hjónin fundust í Lystigarðinum og náðu um borð í skipið í tæka tíð. 

  • Þetta er bara brot af þeim jákvæðu og skemmtilegu fréttum sem Akureyri.net sagði á árinu 2024. Vonandi verða þær enn fleiri árið 2025!  Akureyri.net - oftast sólarmegin. 

     


Þórdís Anna og Guðrún Mist settu sig í leynilöggugírinn í sumar og fundu tvo farþegar á níræðisaldri sem vissu ekki að þeir væru að missa af skipi sem var á leið frá bryggju.