Fara í efni
Sigurður Ingólfsson

Íslensk meðvirkni

Mikið hefur verið fjallað um meðvirkni síðustu ár og daga og það er í sjálfu sér gott. Það sem því fylgir að vera eins og viljugur þræll annars eða annars hvata, fýsna eða fíknar. Því fylgir vanmáttug reiði og von um breytingu en aldrei gengið eftir því að sú breyting verði, vegna þess að það er enn til staðar einhver fjarræn von um að þetta lagist nú einhvern tímann og allt verði gott og blessað. Þetta er reyndar afskaplega raunsæ lýsing á íslensku samfélagi. Íslenskt samfélag hefur búið við alræði fjárglæfrafólks og peningafíkla um allnokkuð langa hríð. Þjóðin hefur látið skattpína sig og sætt sig við það að vera samt þegnar þeirra sem böðlast á því. Og allir vita, ef einhver þokkalega heilbrigð skynsemi er á bak við orð og æði að það er ekkert ríkisvald til á Íslandi. Það er að segja ríkisvald sem er til staðar til að þjóna hagsmunum þjóðarinnar en ekki bara hluta hennar. Þetta svokallaða ríkisvald er undirsett lögum þeirra sem mest mega sín fjárhagslega. Og í þokkabót eru ráðherrar þjóðarinnar í þeirra hópi. Og þá er meðvirknin þeim mjög hagkvæm, eins og hún getur verið hverjum öðrum fíkli. Hér þarf ég að ég biðja eiturlyfjafíkla afsökunar á því að bera þá saman við peningafíklana. Afsakið. En meðvirkni heillar þjóðar gagnvart þeim sem geta farið með peninga eins og þeim lystir er orðin meira en vandræðaleg, hún er orðin hjákátleg og til háðungar. Til dæmis fer fólk í hrönnum og kýs aftur og aftur yfir sig það vald sem hefur ráðskast með viðurværi þess og tilveru í allt of langan tíma. Rétt eins og fórnarlamb hvaða fíkils sem er, hangir í voninni um breytta hegðun og viðhorf og styður hann þess vegna í hegðun sinni, jafnvel að hreinum og tærum kærleika. sem síðan er svívirtur aftur og aftur. En meðvirkni er flókið fyrirbæri og það er ekki rétt hjá mér að bera þetta svona svart/hvítt saman við meðvirkni með einstaklingum. Þetta verður bara svo yfirgengilegt og óttalegt þegar hópar fólks lifa á því að þeirra meðvirku þegnar leggi allt sitt í sölurnar til þess að þóknast gerandanum, sem í þessu tilfelli eru hópar, fámenns stóreignafólks sem þykist ekki þurfa að bera neina samfélagslega ábyrgð eða þurfa að sýna á nokkurn hátt umhyggju fyrir landi sínu og þjóð. Þetta er liðið sem kemur því í verk að láta ríkisvaldið samþykkja að selja landspildur og þjóðareignir til stóreignafólks af vítaverðu virðingarleysi gagnvart landi sínu og þjóð. Einhversstaðar þarf að setja mörk. Og þó svo ég viðurkenni það fúslega að mér er ekkert sérstaklega vel við boð og bönn, þá veit ég ef ég hef gengið of langt í minni hegðun og reyni þá að gera eitthvað í því. Því er ekki til að tjalda hjá ríkisvaldi sem er hvort eð er líka í þrælshlutverki gagnvart peningavaldinu. Það er sorglegt að sjá þá þjóð sem eitt sinn var stolt af því að eiga fyrsta kvenkyns forsetann, þá þjóð sem var stolt af Vilhjálmi Einarssyni, var stolt yfir Halldóri Laxness, var stolt yfir handritunum og stolt af sameiginlegum menningararfi vera orðna að þrælslundaðri þjóð sem hlýðir yfirvaldinu sem sjálft er í helgreipum peningavaldsins. Þess vegna er vissulega, þó einhverjir kverúlantar neiti því, til fátækt á Íslandi, fólk sem á vart fyrir mannsæmandi lífi, fólk sem varla getur, ef þá það getur, farið þó ekki væri nema einu sinni í bíó á ári á meðan að einhver minnihluti fólks getur leyft sér allt sem hugurinn girnist. Þegar ég var í menntaskóla og einhverjir frjálshyggjudindlar trommuðu upp með speki á borð við þá að það væri rangt að taka skatta af stóreignarfólki og sögðu: „Hvers vegna á að refsa þeim sem eru duglegir að vinna?“ varð manni í hæsta máta bumbult. Einhvern tímann fyrir ekkert svo löngu síða voru til dugnaðarforkar sem byggðu upp fyrirtæki, sinntu almennilega þeim sem hjálpuðu þeim að koma þessu öllu á koppinn, borguðu mannsæmandi laun og bjuggu til lítil ríkidæmi í eigin samfélagi. Þeir tímar virðast löngu liðnir. Núna eru það þeir sem fengu allt upp í hendurnar sem sitja við stjórnvölinn. Og þeim er slétt sama um það sem byggði upp þeirra eigur. Þar er hugsað um eigin hag. Jú og hag vina sinna. Þannig að við stöndum uppi með afskaplega áberandi tvískipt þjóðfélag. Annarsvegar er pöpullinn, almennt launafólk og þetta dót sem heitir aldraðir og öryrkjar og hins vegar valdastrúktúr þeirra sem eiga allt og þar á meðal pöpulinn. Og eins og venjulega er þetta tilskrif ekkert meira en eins og segir í afbragðsskemmtilegri bók, „rödd hrópandans í eyðimörkinni.“ Af því að það eru afskaplega litlar líkur á því að fólk taki sig saman og segi NEI! Hingað og ekki lengra! Einhversstaðar þarf að brjóta upp munstrið. Einhversstaðar þarf að stíga skref í aðra átt en þá sem kúgararnir benda fólki. Til dæmis með því að hætta að kjósa alltaf og endalaust yfir sig sama gamla valdabatteríið. Ef einhver lufsast til að þora það og jafnvel að skipta um skoðun. Sem iðulega teljast svik við upploginn málstað en að mínu viti er greinilegt merki um skynsemi. Maður gengur jú ekki í sömu brókinni endalaust.

Sigurður Ingólfsson er rithöfundur og þýðandi

Svona bara af því bara

Sigurður Ingólfsson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:02

Enn einn heimsendir

Sigurður Ingólfsson skrifar
15. janúar 2024 | kl. 11:00

Orð

Sigurður Ingólfsson skrifar
06. janúar 2024 | kl. 10:00

Requiem

Sigurður Ingólfsson skrifar
06. desember 2023 | kl. 10:30

Í Davíðshúsi

Sigurður Ingólfsson skrifar
28. september 2023 | kl. 09:00

Litla gula hænan

Sigurður Ingólfsson skrifar
17. september 2023 | kl. 12:30