Fara í efni
Sigurður Ingólfsson

Evuljóð

Þarna hangir ormurinn og unir sér þar
innum greinar trés með forna speki.
Blessunin hún Eva gat vart gefið svar
er glottuleitur ormurinn og freki
spurði hvort að Drottinn hefði sagt
að Eva myndi deyja daginn þann
sem dreypti hún á safa af hverri sort?
En Eva sagði feimin að aðeins ávöxt þann
sem ekki mætti borða væri einmitt þar
sem ormurinn var hangandi að blaðra.
Hann rétti Evu ávöxtinn og innra með sér hló
(„Ekkert mál að þrýsta á með að þvaðra“)
og þuldi bull um Edens nautnaskóg
svo Eva saup á safa af lífsins tré
og ólgaði af vitneskju um sig.
Hún sá um alla haga fagurt fé
og fór til Adams, sagði: „Drífðu þig!
Þú þarft að smakka þetta, alveg klikkað kikk!
Kæri vinur komdu nú að smakka.“
Svo Adam hlýddi og æddi að stað með rykk
með Evu sinni og kepptist við að þakka
fyrir hennar ráðdeild og spök þau gæfuspor
sem spruttu fram á milli nýrra blóma
og bæði sýndu hugrekki og heilmikið þor
en helst þau vildu svolítið af rjóma.
Því ávextirnir góðu voru mikill munnbiti
því mikil þekking streymdi þeim um tungu.
Um hálsinn streymdi mikilvægur munnsviti
af munúð sem að fyllti sál og lungu.
Og þegar Drottinn sá þau sitja nakin
næstum bara klædd í lauf og lyng
hann spurði hvort sporin yrðu rakin
til spuruls orms sem bauð á kolsvart þing.
Í reiði sinni bauð hann parið burt
og bætti við það nokkrum völdum orðum.
En orminn lét hann engjast pínu meir
og urraði svo bölbænir, grimmari en forðum.
Hann sagði orminum að ávallt kveljast
undir hælum fólks af öllum toga.
Svo nennti hann ekki orminn við að dveljast
og engla fékk að gæta hliðs með loga.
Svo fór það sem það fór og sumir sættust
sumir drápu bróður sinn og fóru
til Nod og fóru að smíða járn svo kættust
karlar en Adam bæði og Eva voru í stóru
við allar þessar nýbyggingargjarðir,
gengu í nýja húsasmiðju og í Faco fóru
Og þannig gekk það út um allar jarðir
og endaði í útigrilli stóru.
En ávöxturinn hélt áfram að færa líf
og alla vitneskju um líf og dauða
Og þá varð Eva, Adams helsta hlíf
er úti vindar lemja allt og gnauða.
Og þannig var það Eva sem átti frumkvæðið
að öflun þroska, lærdóm fullum vona
en það var erfitt eftir ormsins æðið
en Eva hafði betur, enda kona.

Sigurður Ingólfsson er rithöfundur og þýðandi

Svona bara af því bara

Sigurður Ingólfsson skrifar
27. mars 2024 | kl. 10:02

Enn einn heimsendir

Sigurður Ingólfsson skrifar
15. janúar 2024 | kl. 11:00

Orð

Sigurður Ingólfsson skrifar
06. janúar 2024 | kl. 10:00

Requiem

Sigurður Ingólfsson skrifar
06. desember 2023 | kl. 10:30

Í Davíðshúsi

Sigurður Ingólfsson skrifar
28. september 2023 | kl. 09:00

Litla gula hænan

Sigurður Ingólfsson skrifar
17. september 2023 | kl. 12:30