Fara í efni
Sigmundur Ernir

Búrið

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 58

Heima í Helgamagrastræti, hjá Sigmundi afa og Sigrúnu ömmu, var eldhúsið ekkert sérstaklega stórt að flatarmáli, en þeim mun rúmmeira af ástúð og atlæti eins og það var jafnan kallað á heimilinu á utanverðri Brekkunni.

Og kom svo sem ekki að sök þótt lengdarmetrarnir á milli veggja væru fáir og stuttaralegir, því ofan úr eldhúsinu, norðvestanverðu, var gengið niður brattar og þröngar tröppur sem enduðu við álitlegar búrdyrnar.

Afi hafði þær læstar, og faldi lykilinn á bríkinni ofan við hurðina, og enda þótt það væri altalað í stórfjölskyldunni hvar naglann væri að finna, þorði ekki nokkur sála innan hennar raða að fara að fikta eitthvað í skráargatinu á matvælageymslu ættarhöfðingjans. Ef hún væri læst, færi þangað enginn inn.

En ég var í náðinni. Nafni afa míns. Litla örin í ættboganum. Og það sem mér fannst búrið vera ævintýralega fagurt þegar inn var komið. Þar moraði allt í magál og mörkeppum sem lágu vandlega raðaðir í grunnum hillum eftir veggjunum, en þar upp af, á sjálfum þverbitunum, löfðu hangilærin í röðum og riklingurinn sömuleiðis, ásamt náttúrlega hákarlinum sem hékk þar sveittur og þrútinn í snærinu, þess albúinn að vera skorinn niður í skárri veislurnar.

Og meðfram öllu hornvirkinu stóðu svo að sjálfsögðu yfirfullar tunnur með saltkjöti og annarri pæklaðri dásemd sem átti að geta bjargað heilu sveitunum frá sulti, ef því var að skipta, en var kannski ekki alveg ætlunin eftir að gömlu hjónin höfðu flutt sig um set á mölina fyrir botni Eyjafjarðar.

Í búrinu stóðum við afi og áttum trúnaðarsamtöl. Hann grunaði síðari tíma ísskápa um græsku. Rafmagnaður kuldi var ekki að hans skapi. Því það væri svo að allur almennilega safnaður matur kæmi úr náttúrlega köldum geymslum.

Annað héti að stytta sér leið að lífshamingjunni.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: DANSKA

Selshreifar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
20. janúar 2025 | kl. 11:30

Keiluspil

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. janúar 2025 | kl. 11:30

Rýjateppi

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
06. janúar 2025 | kl. 11:30

Sviðnir leggir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
30. desember 2024 | kl. 11:30

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Sperðlar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
09. desember 2024 | kl. 11:30