Fara í efni
Samherji

Víkingar vilja Svein Margeir og Daníel

Sveinn Margeir Hauksson, til vinstri, og Daníel Hafsteinsson. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Sveinn Margeir Hauksson og Daníel Hafsteinsson, tveir af bestu leikmönnum knattspyrnuliðs KA síðustu ár, eru báðir á óskalista Víkings í Reykjavík. Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, staðfesti þetta við fótbolta.net í gær.

Daníel og Sveinn Margeir riftu báðir samningi við KA í haust en þá kom fram að möguleiki væri á að þeir semdu báðir við félagið á nýjan leik. Sveinn Margeir stundar háskólanám í Bandaríkjunum og óvíst er hvar hann verður næsta sumar; komi hann heim staldrar hann ekki við nema sex vikur á Íslandi því hann þarf að vera mættur snemma út aftur.

„Það er klárlega alvöru áhugi, á bæði Daníel og Sveini Margeiri. Þetta eru tveir toppleikmenn, tveir toppstrákar. Þegar svona gaurar eru fáanlegir þá verðum við að reyna selja þeim að koma hingað,“ segir Arnar Gunnlaugsson við fótbolta.net í gær. Arnar sagði engu máli skipta þótt Sveinn Margeir yrði einungis með í skamman tíma, færi svo að hann semdi við Víking: „Nei, alls ekki. Sveinn Margeir er búinn að vera lengi á okkar radar. Við höfum fullan skilning á hans stöðu. Hann er á besta aldri, getur spilað í tíu ár eftir að hann kemur heim,“ sagði Arnar.

Smellið hér til að sjá frétt fotbolti.net