Fara í efni
Samherji

Stórfenglegt á toppi hæsta fjalls S-Ameríku

Mynd af vef Samherja

Stefán Viðar Þórisson skipstjóri á frystitogara Samherja, Snæfelli EA 310, var í hópi Íslendinga sem í byrjun ársins kleif hæsta fjall Suður-Ameríku, Aconcagua í Andes-fjallgarðinum. Hann segir frá ferðinni í skemmtilegri grein sem birtist á vef Samherja.

Aconcagua er 6.962 m yfir sjávarmáli. Stefán Viðar hefur farið í nokkra háfjallaleiðangra á undanförnum árum, meðal annars klifið Kilimanjaro (5.895 m) og Mount Meru (4.562 m) í Tansaníu. Aconcagua er einn af Tindunum sjö, eins og hæstu fjöll heimsálfanna sjö eru kölluð og er Kilimanjaro einnig eitt þeirra.

Stefán Viðar sem býr á Reyðarfirði hefur alla tíð heillast af fjallgöngu, sem hann stundaði ungur að árum og eftir smá hlé var byrjað aftur og síðustu árin hefur stefnan verið sett á heimsfræga tinda.

Undirbúningurinn eitt ár


„Ég kleif Kilimanjaro, sem er hæsta fjall Afríku, árið 2020 og í kjölfarið var farið að huga að næsta tindi. Fjallið Elbrus í Rússlandi, sem er hæsta fjall Evrópu, var í sigtinu en stríðið í Úkraínu setti strik í reikninginn,“ segir Stefán Viðar.

„Fyrir um það bil ári síðan bauðst mér svo að taka þátt í að klífa Aconcagua með tólf íslenskum fjallaklifrurum og undirbúningurinn hófst þar með fyrir alvöru. Leiðsögumaður leiðangursins var Leifur Örn Svavarsson, sem er tvímælalaust einn sá besti hér á landi. Ég þurfti meðal annars að sanka að mér margvíslegum sérhæfðum búnaði, svo sem háfjallagönguskóm, jöklabroddum, dúnúlpu og svefnpoka sem þolir mikið frost. Ég átti fyrir töluvert af búnaði en hver ferð krefst þess að gaumgæfilega sé farið yfir alla hluti og þeir endurnýjaðir eftir þörfum.“

Æfir sig oftast á austfirskum fjöllum

Veiðiferðir frystiskipa eru gjarnan langar, fimm til sex vikur og tvær áhafnir skiptast á. Fríin eru því að sama skapi nokkuð löng.

„Jú, jú, maður þarf frá upphafi að huga vel að líkamlegu formi og getu. Ég er ekki mikið fyrir líkamsræktarstöðvar, í úthaldi nýti ég þrekhjólið um borð en besta æfingin er að ganga á fjöll og það geri ég óspart í inniverum. Á Austfjörðum er úr mörgum fjöllum og tindum að velja en í raun finnst mér gaman að labba á fjöll hvar sem er á landinu, maður upplifir alltaf eitthvað nýtt í hverri ferð.“

Heilmikið ferðalag


„Ferðalagið frá Íslandi var langt, flogið var frá Keflavík til New York, þaðan til höfuðborgar Chile, Santiago og síðan til Mendoza í Argentínu. Frá Mendoza var ekið í nokkra klukkutíma upp í Andes-fjallagarðinn þar sem gamalt og lúið skíðahótel beið okkar. Á leiðinni var líka náð í tilskilin leyfi til að fara inn í þjóðgarðinn Aconcagua Provincial Park og að klífa fjallið Aconcagua.“

Sjálf gangan hófst í 2.900 metra hæð skammt frá skíðahótelinu. Fyrsta daginn var gengið upp í búðirnar Confluencia sem eru í 3.400 metra hæð, þar var gist og dagskrá næstu daga undirbúin og skipulögð. Hluti búnaðarins var sendur frá skíðahótelinu með múlösnum upp í grunnbúðir og hinn hlutinn í Confluencia til að létta á göngufólkinu.

„Daginn eftir að við komum til Confluencia var farið í aðlögunargöngu að suðurhlíð Aconcagua í um 4.000 metra hæð. Við sáum fjallið vel, einnig þriggja kílómetra háa, snarbratta, klettótta suðurhlíðina sem hefur verið klifin af djörfu fjallafólki,“ segir Stefán Viðar.


Hann heldur áfram: „Daginn eftir var gengið upp í sjálfar grunnbúðirnar Plaza de Mulas, leiðin þangað er um tuttugu kílómetrar og hæðin er 4.300 metrar yfir sjávarmáli. Þar var gist og hvílst einn dag enda þarf líkaminn að aðlagast minnkandi súrefni. Eftir hvíld og aðlögun var fjallið Bonete klifið, sem er 5.048 metra hátt og síðan fórum við aftur í grunnbúðirnar.“

Stóri dagurinn rann upp eftir mikið óveður

Þegar hér er komið við sögu, má segja að atlagan við að klífa sjálfan tindinn hafi verið hafin. Hópurinn gekk næstu dagana upp í búðir sem staðsettar eru hærra á fjallinu og svo niður aftur, til að aðlaga starfsemi líkamans að þunnu loftslaginu. Eina nóttina skall á aftaka veður og nokkur tjöld sprungu hreinlega í loft upp. Þetta setti strik í reikninginn fyrir nokkra gönguhópa sem þurftu nýjan búnað og að breyta áætlun vegna þessa. Daginn eftir óveðrið var komið að þeirri stund að leggja af stað á fjallið og reyna við sjálfan toppinn.


„Við gengum upp í búðir eitt og gistum, svo gengum við upp í búðir tvö og gistum þar í þrjár nætur. Að lokum fórum við upp í búðir þrjú og loks kom að stóra deginum, klífa upp á topp hæsta fjalls Suður-Ameríku og góðu heilli var veðrið hagstætt. Við lögðum af stað eldsnemma um morguninn. Klifrið var erfitt, mikið um brattar skriður með lausu grjóti auk þess sem loftið var mjög þunnt. Hægt og sígandi nálguðumst við þó toppinn, gangan tók rúmlega átta klukkustundir.“

Og hvað hugsaði skipstjórinn þegar takmarkinu var náð ?

„Útsýnið er í einu orði sagt stórfenglegt svo ekki sé meira sagt. Andes-fjallgarðurinn, sem er risa stór, blasti þarna við manni í allri sinni dýrð. Eftir hálfs mánaðar erfiði og margra mánaða undirbúning stóð ég loksins á toppi Aconcagua ásamt mínum íslensku félögum. Ég hafði alltaf verið með þann fyrirvara í huga að geta ekki náð settu marki, til dæmis vegna veikinda, meiðsla eða háfjallaveiki. En þarna var æðislegu takmarki náð og við stóðum þarna á toppnum í um 45 mínútur og nutum útsýnisins í örþunnu andrúmsloftinu. Þessar mínútur voru hreint út sagt stórkostleg upplifun og gleymast aldrei. Ég er reyndar enn þá að vinna úr þessu öllu saman.“

Gangan niður fjallið tók þrjá sólarhringa, en gangan upp tók hálfan mánuð. „Maður þarf að vera með 100% fókus, því slysin verða oftast á leiðinni niður. Auðvitað var maður líka að gera upp ferðina með sjálfum sér og hugsa til þeirra sem þurftu frá að hverfa, af ýmsum ástæðum. Hjá okkur gekk allt saman vel og ferðin endaði eins og í góðu ævintýri. Ég var ekki í símasambandi í marga sólarhringa á leiðinni upp og var því líka spenntur að komast loksins í samband við mína nánustu.“

Og nokkrum dögum eftir að þú stendur á toppi hæsta fjalls Suður-Ameríku, ertu kominn um borð í Snæfell EA 310. Veiðiferðin tekur væntanlega einn mánuð, sem er svipaður tími og þessi magnaða fjallganga ?

„Já, já, það má segja það og það er bara tilhlökkun að fara í veiðiferð á góðu og vel búnu skipi.“

Ertu farinn að undirbúa næstu fjallgöngu ?

„Þessi síðasta var stórbrotið ævintýri og ætli ég segi ekki bara „no comment“ við þessari spurningu. En auðvitað er maður með einhver plön í kollinum og ég leyfi þeim að þróast í ró og næði,“ segir Stefán Viðar Þórisson, þaulreyndur fjallgöngumaður og skipstjóri á Snæfelli EA 310.

Smellið hér til að sjá fleiri myndir