Fara í efni
Samherji

Starfsfólk Samherja og ÚA skimað fyrir Covid

Starfsmaður ÚA skimaður í morgun. Mynd af vef Samherja.

Allt starfsfólk vinnsluhúsa ÚA og Samherja á Akureyri og Dalvík var skimað fyrir Covid-19 í morgun og áhafnir skipa voru sömuleiðis skimaðar fyrir brottför.

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja segir á vef fyrirtækisins að starfsfólkið hafi verið skimað í ljósi þess að margir hafi snúið til baka úr jóla- og áramótafríi eftir að hafa dvalið víða um land og sumir hverjir erlendis. Í ljósi hraðrar útbreiðslu Covid þessa dagana sé afskaplega mikilvægt að gæta fyllsta öryggis.

Faraldurinn enn í vexti

„Við megum auðvitað ekki við því að starfsemin stöðvist og þess vegna var ákveðið að skima alla þegar hjólin eru að fara að snúast að nýju. Skimunin gekk vel fyrir sig og sem betur eru allir neikvæðir og fyrir það er ég þakklátur. Miðað við fjölda smita í þjóðfélaginu er ljóst að starfsfólk okkar hefur farið varlega og verið á varðbergi. Samkvæmt nýjstu tölum greindust nærri áttahundruð með Covid innanlands í gær og nærri eitthundrað á landamærum. Við þetta bætist svo að mörg þúsund eru í einangrun eða sóttkví. Þessi nýjasta bylgja faraldursins er enn í vexti og við verðum að gæta fyllsta öryggis.“

Starfsólkið fer eftir ráðleggingum sóttvarnaryfirvalda

Starfsmenn vinnsluhúsanna á Dalvík og Akureyri eru liðlega tvöhundruð. Öll skip Samherja og ÚA eru farin á veiðar. Áhafnirnar, átta talsins, voru skimaðar fyrir brottför.

Haft er eftir Þorsteini að sérfræðingar áætli að smittölur verði áfram háar, þannig að það er ekkert annað sé í stöðunni en að fara eins varlega og hægt sé. „Ég svo sem bjóst alveg eins við einhverjum jákvæðum niðurstöðum í morgun en starfsfólkið hefur sannarlega farið eftir ráðleggingum sóttvarnaryfirvalda, sem gefur manni tilefni til ákveðinnar bjartsýni í upphafi ársins,“ segir Þorsteinn Már.