Fara í efni
Samherji

Spennistöðin verður ekki færð að sinni

Spennistöð Norðurorku er staðsett í kjallararými Sundlaugarinnar á Akureyri. Hugmyndir voru uppi um að færa hana en skipulagsráð bæjarins var ekki sátt við þá útfærslu sem Norðurorka stakk upp á og vill að ný spennistöðin verði hönnuð og útfærð til samræmis við gömlu sundlaugarbygginguna.

Að svo stöddu lítur ekki út fyrir að spennistöð Norðurorku, sem er staðsett í kjallara Sundlaugar Akureyrar, verði flutt í forsmíðað hús norðanmegin við sundlaugarbygginguna eins og Norðurorka hefur stungið upp á. Í bókun skipulagsráðs hefur komið fram sá vilji að spennistöðin verði hönnuð og útfærð til samræmis við gömlu sundlaugarbygginguna sem Guðjón Samúelsson hannaði.

„Málið snýst um að það var verið að skoða þann möguleika að færa spennistöðina. Við lögðum upp með þá hugmynd að það væri hægt að koma fyrir forsmíðaðri spennistöð norðan við sundlaugarhúsið. Þetta er spennistöð eins og við höfum verið að nota, þ.e.a.s hús sem kemur klárt frá framleiðanda með búnaði. Hugmynd Norðurorku var sú að spennistöðinni yrði komið fyrir bak við girðingu svo hún sæist ekki en skipulagsráð getur ekki fallist á þá hugmynd. Ég geri ráð fyrir því að stöðin verði því bara áfram á þeim stað sem hún er á núna, nema  samtal sem nú er í gangi við Akureyrarbæ um færslu spennistöðvarinnar leiði eitthvað annað í ljós,“ segir Stefán H. Steindórsson, sviðstjóri hjá Norðurorku, þegar hann var inntur eftir upplýsingum um málið.

  • HÉR má sjá hugmynd Norðurorku að staðsetningu spennistöðvarinnar

Undanfarið hefur staðið yfir vinna við að færa til kapla frá spennistöðinni sem staðsett er í kjallararými Sundlaugarinnar. Kaplarnir  lágu innan við súlurnar sem verða framhliðin á nýju innilauginni og hefur því þurft að færa kaplana utar. 

Bærinn vill fá afnot af rýminu

Spennistöð Norðurorku hefur verið staðsett í kjallararými sunnan við núverandi innilaug síðan sundlaugarhúsið var byggt. Að sögn Stefáns kom upp hugmynd um færslu spennistöðvarinnar í haust þegar framkvæmdir hófust við innilaugina. Vegna þeirra framkvæmda hefur Norðurorka verið að færa til rafmagnskapla sem liggja frá spennistöðinni. Segir Stefán að Norðurorka hafi í raun ekki átt frumkvæðið að færslu spennistöðvarinnar heldur hafi bærinn sýnt óformlegan áhuga á því í nokkurn tíma að fá umrætt rými til sín. „Til að koma til móts við Akureyrarbæ stakk Norðurorka upp á áðurnefndri lausn,“ segir Stefán en bætir við að einnig komi til greina að Norðurorka geri breytingar á spennistöðinni þar sem hún er. Þá gæti bærinn fengi hluta af rýminu til afnota. Hann ítrekar að dreifistöðin á sínum núverandi stað hefur engin áhrif á yfirstandandi framkvæmdir í sundlauginni. Samþykktar teikningar af nýju innilauginni gera ráð fyrir dreifistöðinni þar sem hún er, en til stendur að gerður verður nýr inngangur í stöðina á austurhlið samhliða breytingunum á innilauginni.

Miklar framkvæmdir standa nú yfir í Sundlaug Akureyrar. Þar er verið að taka innilaugina alvega í gegn sem og sturtusvæði kvennaklefans. 

Undirbúningur hafinn fyrir flutninginn

Aðspurður hvort þessi niðurstaða skipulagsráðs hafi ekki komið Norðurorku illa segir Stefán að vissulega hafi Norðurorka staðið í þeirri meiningu að ekki yrði neitt vandamál að koma nýrri spennistöð fyrir á þeim stað og á þann hátt sem Norðurorka stakk upp á, enda eigi hún ekki að sjást. Segir Stefán að búið hafi verið að panta stöðina frá framleiðanda en hún hafi verið sett á bið að sinni, meðan verið er að fá endanlega niðurstöðu í málið. Þá hafi Norðurorka farið í vinnu við spennubreytingar í Helgamagrastræti sem undirbúning fyrir flutning á spennistöðinni, þar sem verið er að breyta úr gamla 230 volta kerfinu yfir í 400 volta kerfi. Um er að ræða smávægilega breytingu á forgangsröðun spennubreytinga í bænum en því verki er lokið. „Við höldum samtalinu áfram við Akureyrarbæ með það að markmiði að finna lausn sem er hagfelld fyrir alla hlutaðeigandi aðila“ segir Stefán að lokum.

    • Finna má meiri fróðleik um sögu Sundlaugar Akureyrar í pistli sem Akureyri.net birti árið 2022 eftir Arnór Blika Hallmundsson Hús dagsins: Sundlaug Akureyrar