Fara í efni
Samherji

Snæfell EA 310 kom til heimahafnar á Akureyri

Snæfell EA 310 kemur til Akureyrar á laugardaginn. Ljósmynd: Þórhallur Jónsson

Snæfell EA 310, frystitogari Samherja, kom til Akureyrar á laugardaginn eftir ýmsar endurbætur sem gerðar voru á togaranum í Fredrikshavn í Danmörku.

Skipið, sem var smíðað í Noregi árið 1994, er 85 metra langt og 2.898 brúttótonn. Það hét síðast Akraberg FO en Samherji keypti það af Framherja í Færeyjum. Snæfelli er aðallega ætlað að stunda veiðar og vinnslu á grálúðu og karfa, að því er segir á vef Samherja.

„Vinnslulínan var endurnýjuð, vistarverur voru að stórum hluta endurgerðar og einnig sameiginleg rými. Rafeindahluti í brú var endurnýjaður að mestu leyti. Skipt var um loftræstikerfi og ýmiss búnaður í vélarrúmi var uppfærður. Þá var skipið heil-málað, bæði að innan og utan,“ segir á vef fyrirtækisins.

Ráðgert er að Snæfell haldi til veiða síðar í vikunni. Átjan menn verða að jafnaði í áhöfn. Skipstjóri í fyrsta túr verður Pálmi Hjörleifsson og yfirvélstjóri Óli Hjálmar Ólason. Stefán Viðar Þórisson verður skipstjóri á móti Pálma, segir á vef Samherja.