Fara í efni
Samherji

Samherji vann mál um vörumerkjaréttindi

Í dag var kveðinn upp dómur í Bretlandi í máli sem Samherji hf. höfðaði vegna brota Odds Eysteins Friðrikssonar á vörumerkjaréttindum félagsins. Fallist var allar kröfur Samherja hf. Þetta kemur fram á vef fyrirtækisins.

Oddur Eysteinn setti á síðasta ári upp heimasíðu í nafni Samherja „með breskri lénaskráningu þar sem hann villti á sér heimildir og notfærði sér hugverk í eigu félagsins,“ segir á vef Samherja. „Var umrædd síða látin líta út fyrir að vera raunveruleg vefsíða í eigu Samherja. Þá dreifði hann fölskum tilkynningum í nafni félagsins. Með dómi sem kveðinn var upp í morgun kemur fram að Oddi Eysteini hafi verið þetta óheimilt og var málsástæðum hans um listrænan gjörning hafnað.“

Á vef Samherja segir einnig:

Í dómsforsendum er því slegið föstu að notkun vörumerkis Samherja við hönnun vefsíðunnar hafi verið gerð í því skyni að ljá vefsíðunni trúverðugleika en ekki í þeim tilgangi að varpa fram gagnrýni. Notkun vörumerkis og öll framsetning vefsíðunnar hafi verið eins og um væri að ræða opinbera vefsíðu félagsins. Þannig hafi hönnun síðunnar hvorki falið í sér listræna skopstælingu né skrumskælingu sem rúmast innan þess tjáningarfrelsis sem listamenn njóta.

Það er niðurstaða dómarans að uppsetning vefsíðunnar á léni með nafni félagsins, og vísvitandi framsetning rangra upplýsinga þar inni, hafi falið í sér ásetning um blekkingar. Þá er ekki fallist á að framangreint feli í sér ólögmætar skerðingar á tjáningarfrelsi enda geti tjáningarfrelsi sætt takmörkunum vegna lögbundinna réttinda annarra og þar undir falla vörumerkja- og hugverkaréttindi.

„Við erum að sjálfsögðu ánægð með þessa niðurstöðu. Við vorum knúin til þess að verja vörumerki okkar með málshöfðun þegar öllum mildari úrræðum var hafnað. Dómurinn er afdráttarlaus um hvað geti flokkast sem listræn tjáning og hvað teljist misnotkun á skráðu vörumerki. Sú niðurstaða hlýtur að vera alvarlegt umhugsunarefni fyrir þær menntastofnanir sem lögðu blessun sína yfir augljós vörumerkjabrot undir formerkjum listsköpunar,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja hf.