Fara í efni
Samherji

Samherji og ÚA samnýta veiðiheimildir

Vilhelm Þorsteinsson EA 11, eitt skipa Samherja, kemur í fyrsta skipti til heimahafnar á síðasta ári. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Forstjóri Samherja hf. segir ekki rétt að félagið hafi hagnast um rúman milljarð króna á síðasta ári vegna leigu á kvóta eins og vefmiðillinn Kjarninn haldi fram. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á vef Samherja.

Skilja megi umfjöllunina svo að um sé að ræða tekjur vegna kvótaleigu til þriðja aðila en sú sé ekki raunin. Útgerðarfélag Akureyringa og Samherji Ísland, sem bæði séu að fullu í eigu Samherja hf., samnýti veiðiheimildir svo um viðskipti innan félagsins sé að ræða. Þau þurfi að vera gegnsæ og því skráð með skilmerkilegum hætti.

Yfirlýsing forstjóra Samherja er svohljóðandi:

„Í umfjöllun Kjarnans um ársreikning Samherja Íslands ehf. kemur fram að félagið hafi haft rúman milljarð króna í tekjur á síðasta ári vegna kvótaleigu miðað við meðalgengi evru það ár. Auðveldlega má skilja þessa umfjöllun þannig að um sé að ræða tekjur vegna kvótaleigu til utanaðkomandi aðila, sem er alls ekki raunin.

Útgerðarfélag Akureyringa ehf. og Samherji Ísland ehf., sem bæði eru sjálfstæð félög en að öllu leyti í eigu Samherja hf., samnýta veiðiheimildir til að afla hráefnis til vinnslu á Dalvík og Akureyri. Viðskipti milli þessara félaga, m.a. með veiðiheimildir, eiga að vera gagnsæ og frá þeim ber að greina svo sem gert er í reikningum félaganna. Félögin eru jafnframt samsköttuð. Hér er því ekki um raunverulegar leigugreiðslur til þriðja aðila að ræða heldur innbyrðis viðskipti innan Samherja hf. sem ber að greina frá með þessum skilmerkilega hætti.

Af virðingu fyrir sögu félagsins og þýðingu þess fyrir samfélagið á Akureyri hefur Útgerðarfélag Akureyringa ehf. verið rekið sem sjálfstætt félag. Hafa botnfiskútgerð og botnfiskvinnsla Samherja hf. því verið rekin á þessum tveimur kennitölum þótt reglulega hafi komið til tals að sameina félögin.

Kjarninn hefur sýnt samstæðu Samherja hf. mikinn áhuga í gegnum tíðina. Ritstjórn miðilsins ætti því að vera vel kunnugt um uppbyggingu hennar og viðskipti milli félaga innan samstæðunnar.

Að lokum má geta þess, að Samherji hf. hefur ekki greitt arð til eigenda sinna s.l. þrjú rekstrarár.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.“