Fara í efni
Samherji

Sá fimmti „innfæddi“ sem verður ráðherra

Logi Már Einarsson er menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra í ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur eins og Akureyri.net hefur fjallað um.

Stundum er brugðið á leik og rökrætt um það hver sé Akureyringur og hver ekki! Sumir eru harðir á því að Akureyringar séu þeir einir sem fæðst hafa í bænum, aðrir telja aðflutta verða Akureyringa eftir búsetu í höfuðstað Norðurlands í tiltekinn fjölda ára. Engin regla mun þó hve árin skulu mörg...

Þegar rýnt er í söguna kemur í ljós að Logi Einarsson er aðeins fimmti ráðherra Íslandssögunnar sem fæddur er á Akureyri og einungis sá þriðji á lýðveldistímanum, a.m.k. skv. þeim upplýsingum sem birtar er á vef Alþingis. Logi er sem sagt aðeins fimmti „innfæddi“ Akureyringurinn sem gegnir ráðherraembætti. Svona nokkuð skiptir ekki neinu máli í stóra samhengingu – en er samt forvitnilegt! 

Fimmenningarnir eru þessir:

Klemens Jónsson

Klemens Jónsson var atvinnumálaráðherra 1922–1924, jafnframt fjármálaráðherra 1923–1924.

Hann var fæddur á Akureyri 27. ágúst 1862 og lést 20. júlí 1939.

Á vef Alþingis segir meðal annars:

Alþingismaður Eyfirðinga 1892–1904 (sat ekki þing 1894), alþingismaður Rangæinga 1923–1927 (Heimastjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkur). Sat tímabundið á Alþingi 1907, 1909, 1913 og 1914 sem umboðsmaður ráðherra í forföllum hans.

Forseti neðri deildar 1901–1903.

Foreldrar: Jón Borgfirðingur (fæddur 30. september 1826, dáinn 20. október 1912) síðar lögregluþjónn og fræðimaður í Reykjavík og kona hans Anna Guðrún Eiríksdóttir (fædd 8. febrúar 1828, dáin 10. apríl 1881) húsmóðir. 

Tengdafaðir Tryggva Þórhallssonar alþingismanns og ráðherra.

Maki 1 (6. júlí 1889): Þorbjörg Stefánsdóttir (fædd 3. júní 1866, dáin 30. janúar 1902) húsmóðir. Foreldrar: Stefán Bjarnarson og kona hans Karen Emilie Bjarnarson, fædd Jörgensen. Systir Bjarnar Bjarnarsonar sýslumanns og alþingismanns og Camillu konu Magnúsar Torfasonar sýslumanns og alþingismanns.

Maki 2 (16. október 1908): Anna María Jónsson, fædd Schiöth (fædd 1. júní 1879, dáin 8. nóvember 1961) húsmóðir. Foreldrar: Peter Frederik Hendrik Schiöth og kona hans Anna Cathrine, fædd Larsen. Börn Klemensar og Þorbjargar: Anna Guðrún (1890), Karen Emilie (1893), Agnar Stefán (1896). Börn Klemensar og Önnu: Agnar Klemens (1909), Alma Valborg (1910).

Stúdentspróf frá Lærða skólanum 1883. Lögfræðipróf frá Hafnarháskóla 1888.

Klemens dvaldist í Reykjavík 1888–1889 við ýmis störf. Aðstoðarmaður í íslensku stjórnardeildinni í Kaupmannahöfn 1889–1891. Sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu og bæjarfógeti á Akureyri 1891–1904. Settur amtmaður í norður- og austuramtinu 1894. Landritari 1904–1917, er embættið var lagt niður. Vann síðan að sögurannsóknum og ritstörfum. 

Magnús Kristjánsson

Magnús Kristjánsson var fjármálaráðherra 1927–1928.

Hann var fæddur á Akureyri 18. apríl 1862 og lést 8. desember 1928.

Á vef Alþingis segir meðal annars:

Alþingismaður Akureyrar 1905–1908 og 1913–1923, landskjörinn alþingismaður 1926–1928 (Heimastjórnarflokkurinn, Sambandsflokkurinn, Heimastjórnarflokkurinn, Framsóknarflokkur).

Forseti sameinaðs þings 1922 og 1923. 2. varaforseti efri deildar 1917.

Foreldrar: Kristján Magnússon (fæddur 7. desember 1824, dáinn 10. október 1898) húsmaður þar og kona hans Kristín Bjarnadóttir (fædd 26. apríl 1827, dáin. 23. mars 1885) húsmóðir.

Maki (12. nóvember 1887): Dómhildur Jóhannesdóttir (fædd 25. júlí 1863, dáin 14. mars 1946) húsmóðir. Foreldrar: Jóhannes Jónsson og kona hans Jóhanna Jóhannesdóttir. Börn: Kristín Vilhelmína (1888), Jóhann Kristján (1891), Kristín (1893), Jóhanna Kristín (1894), Friðrik (1896), Friðrik (1903).

Nam beykisiðn á Akureyri og í Kaupmannahöfn 1878–1882, lauk prófi í Kaupmannahöfn.

Vann að verslunarstörfum á Akureyri 1882–1893, setti þá sjálfur á fót verslun og sjávarútgerð þar og rak til 1917, jafnframt afgreiðslumaður Eimskipafélagsins 1914–1920. Skipaður 1913 yfirfiskmatsmaður á Akureyri. Forstjóri Landsverslunarinnar 1918–1927. Rak jafnframt útgerð í Reykjavík frá 1924. Skipaður 28. ágúst 1927 fjármálaráðherra og gegndi því starfi til æviloka, 8. desember 1928.

Sat í bæjarstjórn Akureyrar 1902–1905, 1908–1911 og 1913–1918. Formaður miðstjórnar Framsóknarflokksins frá 1926. 

Jóhann Hafstein

Jóhann Hafstein var dóms- og kirkjumálaráðherra og iðnaðarmálaráðherra 1961 og 1963–1970. Hann var forsætis- og iðnaðarráðherra 1970–1971.

Jóhann var fæddur á Akureyri 19. september 1915 og lést 15. maí 1980.

Á vef Alþingis segir meðal annars:

Alþingismaður Reykvíkinga 1946–1978 (Sjálfstæðisflokkur).

Skipaður 1961 dóms- og kirkjumálaráðherra og iðnaðarmálaráðherra frá 14. september að telja til 31. desember 1961. Skipaður 14. nóvember 1963 að nýju dóms- og kirkjumálaráðherra og iðnaðarmálaráðherra, fór einnig með heilbrigðismál til 1. janúar 1970. Gegndi jafnframt störfum forsætisráðherra frá 10. júlí 1970. Skipaður 10. október 1970 forsætisráðherra og iðnaðarráðherra, lausn 15. júní 1971, en gegndi störfum til 14. júlí.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1965–1970. Formaður Sjálfstæðisflokksins 1970–1973.

Forseti neðri deildar 1959–1961 og 1962–1963.

Foreldrar: Jóhannes Júlíus Havsteen (fæddur 13. júlí 1886, dáinn 31. júlí 1960) síðar sýslumaður á Húsavík og kona hans Þórunn Jónsdóttir Havsteen (fædd 10. ágúst 1888, dáin 28. mars 1939) húsmóðir, dóttir Jóns Þórarinssonar alþingismanns.

Maki (17. september 1938) Ragnheiður Hafstein, fædd Thors (fædd 23. júlí 1920, dáin 9. apríl 1997) húsmóðir. Foreldrar: Haukur Thors, bróðir Ólafs alþingismanns og ráðherra og Thors alþingismanns Thors, og kona hans Sofía Lára Thors, dóttir Hannesar Hafsteins alþingismanns og ráðherra. Synir: Haukur (1941), Jóhann Júlíus (1946), Pétur Kristján (1949).

Stúdentspróf MA 1934. Lögfræðipróf HÍ 1938. Framhaldsnám í þjóðarétti við Lundúnaháskóla 1938–1939 og sumarið og haustið 1939 í Danmörku og Þýskalandi.

Bankastjóri Útvegsbanka Íslands 1952–1963.

Tómas Ingi Olrich

Tómas Ingi Olrich var menntamálaráðherra 2002–2003.

Hann fæddist á Akureyri 13. febrúar 1943.

Á vef Alþingis segir meðal annars:

Alþingismaður Norðurlands eystra 1991–2003, alþingismaður Norðausturkjördæmis 2003 (Sjálfstæðisflokkur).

Foreldrar: Henry Olrich (fæddur 12. september 1908) framkvæmdastjóri í Noregi og Margrét Steingrímsdóttir (fædd 27. mars 1912, dáin 8. júlí 1995) klæðskerameistari og verslunarmaður á Akureyri.

Maki 1 (8. ágúst 1964): Hjördís Daníelsdóttir (fædd 26. ágúst 1945) röntgentæknir. Þau skildu. Foreldrar: Daníel Helgason og kona hans Helga Blöndal.

Maki 2 (20. júní 1981): Nína Þórðardóttir (fædd 10. desember 1946) starfsmaður Ríkisútvarpsins á Akureyri. Foreldrar: Þórður Gunnarsson og kona hans Guðrún Ísberg, dóttir Guðbrands Ísbergs alþingismanns.

Dætur Tómasar og Hjördísar: Margrét (1964), Helga (1965). 

Stúdentspróf MA 1963. Nám í frönsku og sagnfræði við HÍ 1963–1964. Nám í frönsku og frönskum bókmenntum, ensku og atvinnulandafræði við Montpellier-háskóla í Frakklandi. Licence ès lettres-próf 1967, Maître ès lettres modernes 1970.

Kennari við Menntaskólann á Akureyri 1970–1991, aðstoðarskólameistari 1973–1983. 

Skipaður 2. mars 2002 menntamálaráðherra, lausn 23. maí 2003. Skipaður 23. maí 2003 menntamálaráðherra, lausn 31. desember 2003.

Tómas Ingi var sendiherra Íslands í Frakklandi frá 2004 til 2009.

 

Logi Einarsson

Logi Einarsson varð menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra 21. desember 2024.

Hann er fæddur á Akureyri 21. ágúst 1964.

Á vef Alþingis segir meðal annars:

Alþingismaður Norðausturkjördæmis síðan 2016 (Samfylkingin). Varaþingmaður Norðausturkjördæmis október 2010, apríl, október og desember 2011 og janúar–mars 2013 (Samfylkingin).

Foreldrar: Einar Helgason (fæddur 11. október 1932, dáinn 15. desember 2013) myndlistarmaður og kennari og Ásdís Karlsdóttir (fædd 6. júní 1935) íþróttakennari.

Maki: Arnbjörg Sigurðardóttir (fædd 10. janúar 1973) héraðsdómari. Foreldrar: Sigurður Óli Brynjólfsson og Hólmfríður Kristjánsdóttir.

Börn Loga og Arnbjargar eru Úlfur (1997), Hrefna (2004).

Stúdentspróf MA 1985. Próf í arkitektúr frá Arkitekthøgskolen í Ósló 1992.

Arkitekt hjá H.J. teiknistofu 1992–1994, skipulagsdeild Akureyrarbæjar 1994–1996, Teiknistofunni Form 1996–1997, Úti og inni arkitektastofu 1997–2003, Arkitektúr.is arkitektastofu 2003–2004 og Kollgátu arkitektastofu 2003–2016. Stundakennari við HR 2010–2012. Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra síðan 21. desember 2024.

Varabæjarfulltrúi á Akureyri 2010–2012, bæjarfulltrúi 2012–2016. Formaður Akureyrarstofu 2014–2015, formaður skólanefndar 2015–2016. Í stjórn Arkitektafélags Íslands 2010–2013, formaður 2010–2012. Varaformaður Samfylkingarinnar 2016, formaður 2016–2022.

 

Mun fleiri hafa tengingu við Akureyri en fimmenningarnir; hafa búið þar eða starfað, stundað nám, eða vegna fjölskyldutengsla. Hér eru nokkur dæmi:

  • Kristján Þór Júlíusson var bæjarstjóri á Akureyri og hefur lengi verið búsettur í bænum, en Kristján er fæddur á Dalvík 1957. Hann var heilbrigðisráðherra 2013–2017, mennta- og menningarmálaráðherra og ráðherra norrænna samstarfsmála 2017, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2017–2021.
  • Bragi Sigurjónsson, bankaútibússtjóri og skáld, var landbúnaðar- og iðnaðarráðherra 1979-1980. Hann bjó á Akureyri í áratugi en var fæddur á Einarsstöðum í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu 9. nóvember 1910.
  • Vilhjálmur Þór var utanríkis- og atvinnumálaráðherra 1924-1944. Hann var kaupfélagsstjóri KEA um tíma og síðar m.a. forstjóri SÍS. Vilhjálmur var fæddur á Æsustöðum í Eyjafirði 1. september 1899.
  • Stefán Jóhann Stefánsson, formaður Alþýðuflokksins 1938-1952, fyrsti utanríkisráðherra Íslands og seinna forsætisráðherra, fæddist á Dagverðareyri í Glæsibæjarhreppi 20. júlí 1894.