Fara í efni
Samherji

„Sýnir að ekkert var hæft í fullyrðingunum“

Ríkissaksóknari Noregs hefur fellt niður sakamál sem var til rannsóknar og beindist að norska bankanum DNB vegna viðskipta við félög tengd Samherja. Rannsóknin, sem meðal annars snérist um ásakanir um peningaþvætti, leiddi ekki í ljós neina refsiverða háttsemi sem gæti leitt til ákæru, eins og það var orðað í tilkynningu bankans á vef norsku kauphallarinnar í gær.

„Samherji hefur legið undir þungum ásökunum um að hafa stundað peningaþvætti í gegnum DNB bankann vegna útgerðar í Namibíu. Því til stuðnings hafa fjölmiðlar, meðal annars hér á landi, vísað til rannsóknarinnar á DNB bankanum í Noregi. Niðurstaða ríkissaksóknara Noregs um niðurfellingu málsins sýnir að ekkert var hæft í þessum fullyrðingum,“ sagði á heimasíðu Samherja í gær.

„Samherji fagnar þessari niðurstöðu enda hefur félagið ávallt haldið því fram að ásakanir vegna viðskipta tengdra félaga við DNB hafi verið tilhæfulausar. Mjög veigamikill þáttur í umfjöllun Ríkisútvarpsins um útgerðina í Namibíu varðaði umrædd viðskipti við DNB bankann. Þar voru upplýsingar um áreiðanleikakönnun bankans slitnar úr samhengi og lánveitingar, sem voru framkvæmdar til að tryggja að greiðslur bærust skipverjum á réttum tíma, gerðar tortryggilegar. Mjög alvarlegar ásakanir voru settar fram um þessi viðskipti, meðal annars að þau hafi falið í sér peningaþvætti.“

Óttast ekki aðrar rannsóknir

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, kvaðst í gær ekki óttast aðrar rannsóknir sem eru í gangi, bæði í Namibíu og á Íslandi. „Þetta er að hluta til unnið eins og Seðlabanka­málið, fyrst og fremst af hálfu RÚV gert til að skaða fyr­ir­tæki og fólk. Ég veit að þegar okk­ur tekst að fara að verja okk­ur á þeim stöðum sem mál­in eru til rann­sókn­ar þá ótt­ast ég ekki niður­stöðuna í því frek­ar en í þessu máli,“ sagði Þor­steinn Már við 200 mílur, sjávarútvegsvef mbl.is.