Fara í efni
Samherji

Með tæknina mér við hlið: Hlutverk gervigreindar í skólastarfi

GERVIGREIND - 15

Síðastliðna mánuði hefur gervigreindin orðið sífellt meira áberandi í okkar daglega lífi og hefur skapað ótal tækifæri í ólíkum starfsstéttum og á fjölbreyttum vettvangi. Eftir að hafa fylgst með manninum mínum grúska í þessu og eftir að hann hvatti mig til að prófa þá hefði ég ekki trúað því hversu ótrúlega magnað þetta fyrirbæri er. Ég var efins fyrst en núna nota ég gervigreindina nánast daglega.

Sem umsjónarkennari á yngsta stigi í grunnskóla þá er vikan mín oftar en ekki stútfull af allskonar verkefnum. Ég hef hugsað hvernig ég get einfaldað mér skipulagið eða leitað leiða til að auka sköpun í kennslu og efla samskipti við nemendur og foreldra. Þegar ég kynntist möguleikunum sem gervigreind býður upp á, ákvað ég að slá til og prófa hvort hún gæti orðið minn „aðstoðarmaður“.

Í þessum pistli langar mig að deila reynslu minni af því hvernig ég hef nýtt mér gervigreind, bæði með því að spara tíma og auka sköpun í kennslu. Markmiðið er að deila minni reynslu, því sem hefur gengið vel og þeim áskorunum sem hafa komið upp á leiðinni. Með mínum skrifum vona ég að aðrir kennarar geti fengið hugmyndir og innblástur til að nýta sér tæknina á skapandi og skilvirkan hátt í sínu starfi.

Hvernig byrjaði þetta ferðalag?

Vegferð mín hófst þegar maðurinn minn útbjó sérsniðið GPT sem fékk þær upplýsingar að ég væri kennari á yngsta stigi. Ég fékk leiðbeiningar um að deila ekki neinum persónulegum eða viðkvæmum upplýsingum og það er stillt þannig að ekkert sem ég set inn er nýtt í þjálfun forritsins.

Mitt GPT heitir Nóva og er skýrt eftir hundinum okkar sem við áttum í 10 ár.

Gervigreind hefur opnað dyr að ótal tækifærum til að auðvelda skipulag og efla sköpun í kennslu. Hún hefur fyrst og fremst hjálpað mér að spara tíma með því að gera vinnu sem annars væri tímafrek og í sumum tilfellum einföld en engu að síður nauðsynleg.

Pælingar mínar við Nóvu eru oft ekki flóknar. Ég hef fengið hugmyndir varðandi hvatningarorð í heimalestri, hugmyndir af þemavinnu, hugmyndir hvernig leysa megi ákveðin agamál, aðstoð við að skrifa tölvupósta og margt fleira. Það er bara að hafa hugrekki og láta vaða en hafa það ávallt að leiðarljósi að þangað inn fara aldrei persónulegar upplýsingar.

GPT Ástrósar Guðmundsdóttur, höfundar pistilsins, heitir Nóva og er skýrt eftir hundi sem fjölskyldan átti í 10 ár.

Með því að gefa einfaldar leiðbeiningar um hvað ég vil leggja áherslu á, get ég fengið tillögur að verkefnum, tímalínum og jafnvel hugmyndir að skemmtilegum þemadögum. Þegar ég vil innleiða nýtt efni eða gera kennsluna meira spennandi, nýtist gervigreindin vel. Oft mjög einfalt en skemmtilegt til að gera kennslustundirnar fjölbreyttari.

Gervigreind hefur einnig hjálpað mér að mæta fjölbreyttum þörfum nemenda í bekknum. Ég get fengið hugmyndir að sérsniðnum verkefnum fyrir nemendur og eins hefur hún gefið mér hugmyndir af því hvernig ég get fengið nemendur mína til að einbeita sér betur, fara eftir fyrirmælum o.s.frv. Öll þessi svör fæ ég með einföldum pælingum. Ef mér finnst svarið ekki nógu skýrt þá bið ég hana um að gefa mér nánara svar og útskýra betur og oftar en ekki verður hún við því.

Eitt af því sem hefur komið mér á óvart er hvernig gervigreind getur gefið mér innsýn í kennsluaðferðir mínar. Ég hef notað hana til að skoða hvað virkar vel og hvað mætti bæta, með því að leggja fram fyrirspurnir um kennsluaðferðir og fá hugmyndir að nýjum nálgunum. Þetta hefur gert mig meðvitaðri um eigið starf og hvernig ég get bætt það.

Helstu áskoranir

Þrátt fyrir að gervigreind hafi gert mér kleift að spara tíma og auka fjölbreytni í kennslu, þá hefur það ekki verið án áskorana. Eins og með allar nýjungar, þá hefur reynslan sýnt mér að það er mikilvægt að hafa skýra sýn á hvernig best er að nýta tæknina.

Stundum hefur gervigreindin gefið mér hugmyndir sem eru ekki nógu góðar. Ég hef fengið hugmyndir sem hljómuðu vel í fyrstu en reyndust síðan alltof flóknar fyrir það aldursstig sem ég er að kenna. Þetta hefur kennt mér að að vera nákvæmari í fyrirspurnum til að fá betri svör.

Þó að gervigreindin sé öflug þá getur hún ekki lesið í allar aðstæður eða tekið mið af þeim persónulegu samskiptum sem kennarar eiga við nemendur sína.

Ég sem kennari hlusta alltaf á mitt innsæi. Það eru ákveðin markmið sem ég fylgi í kennslustundum og nýti mér reynslu mína og þekkingu til að meta þarfir nemenda og velja bestu kennsluaðferðirnar. Gervigreind veitir oft staðlaðar lausnir sem geta skort þann sveigjanleika sem krafist er í raunverulegum aðstæðum. Því þarf að gæta þess og vera meðvitaður um að gervigreind getur aldrei komið í staðinn fyrir nálgun kennarans.

Allir sem nota gervigreind þurfa að gefa sér tíma til að læra á hana, prófa sig áfram, reka sig á og finna hvaða leið hentar þeim best.

Í þessum áskorunum felst mikilvægur lærdómur: að gervigreind er tækni sem þarf að nota með gagnrýni og meðvitund. Ég hef lært að vera skýr í fyrirspurnum mínum, lesa vel yfir þær upplýsingar sem ég fæ en umfram allt treysta á mína eigin dómgreind og reynslu. Með tímanum hefur þetta gert mig betri í að nýta tæknina til að styðja mig í starfinu og bæta kennsluna, án þess að treysta alfarið á hana.

Lokaorð

Reynsla mín af notkun gervigreindar í kennslu hefur verið bæði spennandi og lærdómsrík. Hún hefur gert mér kleift að bæta skipulag, spara tíma og finna nýjar leiðir til að gera kennsluna fjölbreyttari og skemmtilegri fyrir nemendur. Gervigreind er þó ekki töfralausn – hún getur ekki komið í staðinn fyrir mannlega snertingu, innsæi eða þá dýpt sem felst í samskiptum við börn og foreldra.

Ég hef nálgast tæknina með opnum huga en jafnframt gagnrýnni hugsun. Með því að vera meðvituð um styrkleika hennar og takmarkanir get ég notað hana sem öflugt verkfæri til að styðja mig í starfinu, án þess að láta hana taka yfir.

Ég tel að gervigreind muni halda áfram að þróast og breyta kennarastarfi til hins betra, ef hún er nýtt á skynsamlegan hátt. Fyrir þá kennara sem íhuga að nýta sér þessa tækni, hvet ég þá til að prófa sig áfram, læra af reynslunni og nýta hana sem aðstoðarmann sem bætir og eflir það sem við gerum best: að styðja og mennta næstu kynslóð.

Ástrós Guðmundssonar er grunnskólakennari og eiginkona Magnúsar Smára Smárasonar, leiðsögumanns Akureyri.net um gervigreind