Fara í efni
Samherji

Margrét EA veiddi fyrir rúma tvo milljarða í fyrra

Björg EA 7, Björgúlfur EA 312 og Kaldbakur EA 1. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Margrét EA 710 kom með mest verðmæti að landi af skipum Samherja á síðasta ári; Margrét, sem veiðir uppsjávarfisk; síld, loðnu, kolmunna og makríl, veiddi fyrir tvo milljarða og 62 milljónum betur. Aflaverðmæti Samherjaskipanna var alls 10 og hálfur milljarður.

Björg EA 7 var hins vegar aflahæst skipa Samherja á árinu, veiddi samtals 9.443 tonn; verðmæti aflans voru tveir milljarðar og 23 milljónir.

Kaldbakur EA 1 fylgdi fast á eftir með 9.377 tonn og Björgúlfur EA 312 var í þriðja sæti með 9.001 tonn. Björgvin EA 311 veiddi 7.062 tonn og Harðbakur EA 3 og leiguskip, sem voru ekki við veiðar allt árið, voru með samtals 4.178 tonn upp úr sjó. Meginuppistaðan í afla skipanna var þorskur en einnig voru ýsa, ufsi og gullkarfi í heildaraflatölunni auk annarra tegunda.

Kaldbakur EA 1 og Björg EA 7 veiddu bæði fyrir tvo milljarða og 23 milljónir, Björgúlfur EA 312 fyrir einn milljarða og 915 milljónir, Björgvin EA 311 fyrir einn og hálfan milljarð og Harðbakur EA 3 og leiguskip, sem eins og áður sagði voru ekki við veiðar allt árið, veiddu alls fyrir rétt rúman milljarð.