Fara í efni
Samherji

Laun myndu hækka um 65 þúsund á mánuði

Vinnslusalur fiskvinnsluhúss Samherja á Dalvík. Mynd af vef Samherja.

Verði nýgerður kjarasamningur Starfsgreinasambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins samþykktur „er ljóst að laun flestra starfsmanna Samherja og tengdra félaga hækka umtalsvert,“ segir á vef Samherja í dag.

„Samkvæmt heimasíðu Einingar Iðju hækka dagvinnulaun fiskverkafólks með sjö ára starfsreynslu um nærri 65 þúsund krónur á mánuði en flestir starfsmenn í fiskvinnsluhúsunum eru með sjö ára starfsaldur eða hærri. Heildardagvinnulaun með bónus hækka um 12,4% og verða 625 þúsund krónur á mánuði, samkvæmt heimasíðu félagsins,“ segir á vef Samherja.

Vakin er athygli á því að frá undirrritun kjarasamningsins hafi Samtök atvinnulífsins almennt talað um að grunntaxtar hækki samkvæmt samningnum um 35 þúsund krónur á mánuði. „Sú hækkun er miðuð við byrjunarlaun á lægsta taxta og engan bónus. Rétt er að undirstrika að enginn hjá Samherja eða tengdum félögum fær laun greidd samkvæmt þessum forsendum. Hækkunin er umtalsvert meiri, eins og fyrr segir.“

Nánar hér á vef Samherja