Fara í efni
Samherji

Kaldbakur hagnaðist um 9,5 milljarða

Höfuðstöðvar Kaldbaks er í gamla Landsbankahúsinu við Ráðhústorg á Akureyri.

Hagnaður samstæðu fjárfestingafélagsins Kaldbaks á síðasta ári nam 9,5 milljörðum króna. Það var fyrsta heila starfsár þess sem sjálfstætt fjárfestingarfélag en áður var það hluti af samstæðu Samherja. Eigið fé Kaldbaks í árslok 2023 var 35,5 milljarðar króna.

Aðalfundur Kaldbaks ehf. var haldinn í dag, fimmtudaginn 29 ágúst. Á fundinum var ársreikningur félagsins fyrir árið 2023 lagður fram og staðfestur af hluthöfum. 

Ljáum rödd og reynslu

„Félagið fékk í heimanmund fyrrum fjárfestingaeignir Samherja sem félagið hafði fjárfest í yfir langt árabil og mynda þær traustan eignagrunn Kaldbaks. Ég tel að starfsfólk Kaldbaks hafi unnið vel úr þessum eignum á liðnu ári og gert félagið vel í stakk búið til að gera sig gildandi á alþjóðlegum fyrirtækjamarkaði. Við leggjum áherslu á að vera fjárfestir sem ljáir rödd sína og reynslu í þau verkefni sem það tekur þátt í,“ segir Eiríkur S. Jóhannsson, forstjóri Kaldbaks, í tilkynningu frá félaginu.

Iðnaður tengdur matvælavinnslu

Eiríkur segir umbreytingu á eignum félagsins í Færeyjum hafa verið helstu verkefni liðins árs, þar telji hann félaginu hafa tekist til og væri enn þátttakandi í samfélaginu. „Á þessu ári höfum við haldið áfram fjárfestingu í iðnaðarframleiðslu tengdri matvælavinnslu, en við festum kaup á öllum hlutum í Optimar AS í Noregi. Fyrir á Kaldbakur eignarhluti í Slippnum Akureyri og Kælismiðjunni Frost á Akureyri og tel ég að þessi fyrirtæki saman sé öflugur og mikilvægur þjónustuaðili fyrir innlendan og alþjóðlegan sjávarútveg. Ég tel að framundan séu bæði krefjandi sem og jákvæðir tímar framundan í starfsemi Kaldbaks.“

Helstu eignir Kaldsbaks ehf. eru eignarhlutir í:

  • REM Offshore Holding A.S. (33,3%)
    Norskt fyrirtæki sem þjónar olíu-, byggingar- og rannsóknariðnaði á sjó. 

  • Optimar A.S. (100%)
    Höfuðstöðvar Optimar eru í Álasundi í Noregi. Fyrirtækið er „leiðandi á heimsvísu í þróun og framleiðslu á sjálfvirkum fiskvinnslukerfum til notkunar um borð í fiskiskipum, á landi og í fiskeldi,“ segir í tilkynningu þegar Kaldbakur keypti félagið fyrr á þessu ári.

  • Føroya Banki (5,1%)
    Færeyjabanki er með starfsemi þar í landi, eins og gefur að skilja, en einnig á Grænlandi.

  • Hagar hf. (7,8%)
    Hagar eiga m.a. Bónus, Hagkaup og Olís.

  • Hrólfsker ehf. (Sjóvá) (48,8%)
    Félagið er stærsti hluthafi í tryggingafélaginu Sjóvá með á 15,94% hlut.

  • Slippurinn Akureyri ehf. (78,9%)
    Fyrirtækið rekur upptökumannvirki og viðgerðarstöð fyrir skip og annast margskonar smíðar, segir á vef Slippsins. Félagið annast þjónustu við sjávarútvegsfyrirtæki og býður heildarlausnir í hönnun, endurnýjun og viðhaldi á skipum og búnaði þeirra.

  • Jarðboranir ehf. (50%)
    Leiðandi fyrirtæki í borunum eftir jarðvarma sem starfar bæði hér heima og erlendis.

Eignir Kaldbaks eru bæði í skráðum sem óskráðum eignum og eru hlutfall erlendra eigna um 40% af heildareignum félagsins.

Á fundinum var stjórn félagsins endurkjörin, en hana skipa Steingrímur H Pétursson, formaður, Dagný Linda Kristjánsdóttir, varaformaður, Katla Þorsteinsdóttir, Kristján Vilhelmsson og Björk Þórarinsdóttir.

Í tilkynningunni frá Kaldbak í dag segir:

Kaldbakur er sjálfstætt alþjóðlegt fjárfestingafélag sem hefur það að meginmarkmiði að skapa langtímaverðmæti með virku eignarhaldi í fyrirtækjum. Eignasafn Kaldbaks er fjölbreytt og má þar finna eignarhluta í fyrirtækjum sem starfa á dagvöru- og eldsneytismarkaði, fjármála- og tryggingamarkaði auk þess fyrirtæki sem þjónusta matvælaframleiðslu og stórar vindmyllur til hafs.

Höfuðstöðvar Kaldbaks eru við Ráðhústorg á Akureyri en félagið hefur ennfremur starfsstöð í Álasundi í Noregi.