Fara í efni
Samherji

KA í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni

Dagur Árni Heimisson, til hægri, gerði 10 mörk í gær. Hann hleypur hér af velli eftir að eiga stoðsendingu á Patrek Stefánsson sem kom KA í 30:29 þegar tvær og hálf mínúta var eftir. Patrekur liggur í vítateignum en Einar Birgir Stefánsson hraðar sér í vörn. Myndir: Skapti Hallgrímsson

KA er enn í níunda sæti Olísdeildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í handbolta, eftir 31:31 jafntefli við ÍBV í KA-heimilinu í gærkvöldi. Þrjár umferðir eru eftir og framundan æsispennandi barátta um sæti í átta liða úrslitakeppni.

Leikurinn í gær var í járnum allan tímann. Aldrei munaði meira en tveimur mörkum en sjaldnast nema einu á annan hvorn veginn. KA var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 19:17, en Eyjamenn jöfnuðu fljótlega og liðin voru síðan samstiga allt til loka.

Það var hornamaðurinn Ott Varik gerði síðasta mark leiksins, jafnaði 31:31 þegar hálf mínúta var eftir og tryggði KA eitt stig; hann náði frákastinu eftir að Pavel Miskevich varði skot Dags Árna Heimissonar. Eyjamenn áttu síðustu sóknina en tókst ekki að komast í ákjósanlegt færi; Andri Erlingsson skaut utan af velli en Bruno Bernat varði í þann mund er leiktíminn rann út.

Hörð barátta við HK

KA er með 13 stig að loknum 19 leikjum, HK er með 16 stig eftir jafn marga leiki og Stjarnan með 18 stig en á leik við Aftureldingu í kvöld til góða. Fyrir neðan KA eru Grótta og ÍR með 10 stig og Fjölnir er neðstur með 8. 

Sigri Stjarnan í kvöld er ljóst að baráttan um áttunda sætið stendur á milli KA og HK en Grótta og ÍR gætu eiga reyndar tölfræðilega möguleika á að blanda sér í baráttuna en það verður þó að teljast ólíklegt.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson kom við sögu hjá KA í gær eftir langa fjarveru vegna meiðsla. Hann gerir hér eina mark sitt í leiknum; kom KA í 26:25 þegar seinni hálfleikurinn var tæplega hálfnaður.

KA vann HK með eins marks mun á Akureyri, 35:34, en HK vann seinni viðureign liðanna með fjögurra marka mun í Kópavogi, 33:29. Kópavogsliðið er því með betri árangur í innbyrðis viðureignum þannig að ekki dugar KA að verða jafnt HK að stigum. Til að komast í úrslitakeppnina verður KA því að vinna tvo leiki að því gefnu að HK fái ekki fleiri stig.

Leikirnir sem KA á eftir:

  • Stjarnan - KA
  • KA - FH
  • Fjölnir - KA

Leikirnir sem HK á eftir:

  • HK - Fram
  • HK - Valur
  • ÍBV - HK

Sigtryggur Rúnarsson, Þórsarinn í Eyjaliðinu, var markahæstur gestanna með átta mörk.

Mörk KA: Dagur Árni Heimisson 10, Patrekur Stefánsson 8, Ott Varik 5, Einar Rafn Eiðsson 5 (2 víti), Logi Gautason 2, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 1.

Varin skot: Bruno Bernat 6 (22,2%), Nicolai Horntvedt Kristensen 3 (25%)

Mörk ÍBV: Sigtryggur Rúnarsson 8 (4 víti), Sveinn Jose Rivera 6, Daniel Esteves Vieira 6, Nökkvi Snær Óðinsson 3, Dagur Arnarsson 3, Gauti Gunnarsson 3, Elís Þór Aðalsteinsson 1, Andri Erlingsson 1.

Varin skot: Petar Jokanovic 10 (26,3%), Pavel Miskevich 2 (40%)

Öll tölfræði úr leiknum

Staðan í deildinni