Fara í efni
Samherji

„Íslenskur fiskur selur sig ekki sjálfur“

„Auðvitað reyndi á alla innviði, það er ábyggilegt. Afhendingaröryggi er stór þáttur í þessu öllu saman og kaupendurnir gátu treyst því að fá umbeðnar pantanir á réttum tíma, þrátt fyrir allar þær takmarkanir sem voru í gildi. Það tekur langan tíma að byggja upp traust og gott viðskiptasamband en því er líka hægt að glata á augabragði.“

Svo mælir Gústaf Baldvinsson, framkvæmdastjóri Ice Fresh Seafood og Seagold, félaga sem sjá um að selja afurðir Samherja og fleiri fyrirtækja um víða veröld, í viðtali á vef Samherja.

Gústaf segir markaði að taka við sér um þessar mundir, eftirspurn sé góð og yfirleitt fáist ágætt verð fyrir afurðirnar.

Stórmarkaðir helstu kaupendur

„Stórmarkaðir eru okkar helstu viðskiptavinir, sem kom sér vel í faraldrinum vegna þess að fólk þarf alltaf að kaupa mat og þeir voru meira og minna opnir. Veitingahús þurftu hins vegar að skella í lás og þar með þurftu þau ekkert hráefni. Vissulega eru veitingahús nokkuð stórir kaupendur hjá okkur á sumum svæðum, en það eru sem sagt stórmarkaðir sem eru langstærstir og það er líklega okkar gæfa varðandi sölu afurða í heimsfaraldrinum.“

Margar brekkur 

„Bretland og Frakkland eru og hafa verið okkar helstu viðskiptalönd. Bandaríkin eru mjög mikilvæg og reyndar öll Evrópa. Löndin sem kaupa af okkur fisk eru ansi mörg þannig að allur heimurinn er undir. Strax í upphafi Covid-19 var ákveðið að gera skipin út af fullum krafti og þar með vinnsluhúsin. Það tókst með miklum ágætum, auðvitað með samstilltu átaki allra starfsmanna Samherja. Samgöngur voru oft á tíðum erfiðar í faraldrinum en okkur tókst að koma afurðum til viðskiptavina okkar á umsömdum tímum, sem er stórt atriði. Brekkurnar voru sem sagt nokkrar, ég viðurkenni það alveg. Samherjahópurinn er magnaður og á tímum heimsfaraldurs er slíkt ómetanlegt.“

Selur sig ekki sjálfur

Gústaf nefnir að stundum sé sagt að íslenskur fiskur sé sá besti í heiminum. „Í hinum harða veruleika gildir ekkert annað en að vera með gæðavöru. Skip Samherja koma með ferskan fisk að landi og vinnslurnar eru afar tæknivæddar, þannig að afurðirnar eru í hæsta gæðaflokki. Ég hef verið í þessari atvinnugrein í þrjátíu ár og veit vel að aðrar þjóðir eru líka með góðan fisk til sölu. Íslenskur fiskur selur sig ekki sjálfur, jafnvel þótt við trúum því að hann sé sá besti í heiminum. Þegar talað er um sjávarútveg gleymist oft að taka sölumálin með í reikninginn, þetta hangir allt saman. Allir hlekkirnir í sjávarútvegi þurfa að vera traustir til þess að ná árangri,“ segir Gústaf Baldvinsson.