Fara í efni
Samherji

Hvalbeinið – einn þekktasti gripur MA

GAMLI SKÓLI – 14

  • Í þessum mánuði eru 120 ár síðan hið gamla, glæsilega skólahús Menntaskólans á Akureyri var tekið í notkun. Akureyri.net birtir af því tilefni einn kafla á dag út mánuðinn úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri.

Fáir gripir Menntaskólans á Akureyri eru þekktari en Beinið en frá þessu hvalbeini er runnið orðtakið að taka á beinið. Skömmu eftir að Sigurður Guðmundsson tók við embætti skólameistara 1921 sendi gömul námsmær honum kjörgrip mikinn, særekið, gráhvítt hvalbein norðan af Langanesfjörum sem varð snemma sögufrægt. Beininu var komið fyrir í skrifstofu sem sæti og látið standa á svartri sauðargæru, sem gaf því harmrænan höggstokksblæ í augum ókunnugra, eins og Örlygur sonur skólameistara orðaði það. Í augum ókunnugra hefur hvalbeinið án efa haft yfir sér harmrænan höggstokkblæ en ekki síður í augum nemenda sem teknir voru á beinið. Var því trúað að brotlegir nemendur sætu á beininu meðan skólameistari veitti þeim föðurlega áminningu. Nemendur fóru því snemma að tala um að vera teknir á beinið eða kallaðir á hvalbeinið og beinið varð tákn um reglu og aga. 

Þegar Sigurður skólameistari lét af störfum í árslok 1947 og fluttist til Reykjavíkur, tók hann beinið með sér. Við andlát hans 1949 kom hvalbeinið í hlut Örlygs listmálara, sonar hans, sem á 100 ára afmæli skólans árið 1980 færði skólanum það að gjöf og hefur það síðan staðið í gömlu skrifstofu skólameistara. Litla myndin til hægri er þegar Skúli Flosason ráðsmaður færði Tryggva skólameistara beinið á tröppum Gamla skóla og litla myndin til vinstri þegar skólameistari og Árni Friðgeirsson gjaldkeri skólans tóku utan af kjörgripnum.

  • Hvalbeinið er kafli úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri sem Völuspá gaf út árið 2013. Höfundur bókarinnar er Tryggvi Gíslason, skólameistari frá 1972 til 2003.