Fara í efni
Samherji

Fyrsta rafræna öryggishandbókin

Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri á Vilhelm EA, Jóhann Gunnar Sævarsson, öryggisstjóri Samherja, Björn Már Björnsson 2. stýrimaður og öryggisfulltrúi á Vilhelm, Anna María Kristinsdóttir, starfsmannastjóri Samherja, Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja og Birkir Hreinsson skipstjóri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Fyrsta rafræna öryggis- og þjálfunarhandbók í íslenska fiskiskipaflotanum hefur verið tekin í notkun um borð í Vilhelm Þorsteinssyni EA 11, uppsjávarskipi Samherja. Handbókin var afhent um borð í Vilhelm í gær en skipið liggur þessa dagana við bryggju á Akureyri þar eð loðnuvertíð er lokið.

Jóhann G. Sævarsson öryggisstjóri Samherja segir bókina marka tímamót en vinna við hana hefur staðið lengi yfir. Bókin hafi m.a. þá kosti umfram prentaða bók að uppfærast stöðugt.

„Ég lít á bókina sem góða og mikilvæga fjárfestingu til framtíðar sem staðfestir framsýni og velvilja eigendanna, og starfsmenn fyrirtækisins eru allir mjög meðvitaðir um mikilvægi öryggismála. Bókin mun sannarlega senda sterk og mikilvæg skilaboð til allra og mun án efa efla enn frekar þá sterku öryggismenningu sem hefur verið að byggjast upp innan fyrirtækisins síðustu árin,“ sagði Jóhann við Akureyri.net í gær.

Tímamót

„Bókin hefur verið sett upp á iPad og öryggisstjóri skips getur þá tekið bókina með sér í nýliðafræðslu og æfingar, skoðað áhættugátlista og verklagsreglur á vettvangi, fyllt inn í gátlistana strax og vistað á öryggisdrif skipsins. Þannig verður öll öryggisvinnan skilvirkari og betri og við náum að halda betur utan um lögbundnu æfingarnar og þá öryggisvinnu sem áhöfnin þarf að sinna um borð,“ segir Jóhann.

Guðmundur Þ. Jónsson og Birkir Hreinsson skipstjórar á Vilhelm eru báðir sannfærðir um að bókin marki viss tímamót í öryggismálum fiskiskipaflotans, enda nauðsynlegt að uppfæra öruggisbækurnar jafnt og þétt. Þeir segja að áhöfnin á Vilhelm sé vakandi fyrir öllum þáttum er varðar öryggismál. Vonandi fjölgi slíkum bókum hratt í flotanum á næstu árum.

Eflir gæðamál

Sunneva Guðmundsdóttir gæðastjóri Samherja sér mikil tækifæri í notkun rafrænu bókarinnar, sem muni einmitt nýtast vel til að halda um gæðamál um borð.

„Kaupendur okkar eru kröfuharðir og því mun rafrænn aðgangur að skjölum auðvelda gæðavinnuna og gera hana skilvirkari og samhliða gefa okkur sem eru í landi tækifæri til að fylgjast enn betur með öllum ferlum, slíkt styrkir og eflir gæðamálin til muna,“ segir hún.

Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja segist fagna útgáfu bókarinnar, enda eigi öryggismál allat af vera í fyrirrúmi.

„Þótt bókin sé komin út lítum við svo á að það sé ekki endir í þessu ferli heldur upphaf. Slys gera ekki boð á undan sér og þess vegna eru öryggismálin svo mikilvæg, það má aldrei slaka á kröfunum. Sem betur fer eru áhafnirnar okkar vel meðvitaðar í þessum efnum og ég er sannfærður um að fleiri rafrænar bækur líta dagsins ljós á næstu misserum,“ sagði Kristján þegar bókin var afhent.

Um borð í Vilhelm Þorsteinssyni EA 11. Frá vinstri: Guðmundur Þ. Jónsson skipstjóri, Sunneva Guðmundsdóttir gæðastjóri Samherja, Björn Már Björnsson 2. stýrimaður og öryggisfulltrúi á Vilhelm, Jóhann Gunnar Sævarsson, öryggisstjóri Samherja, Anna María Kristinsdóttir, starfsmannastjóri Samherja, Birkir Hreinsson, skipstjóri og Þór Þormar Pálsson, 1. stýrimaður.