Samherji
Fullyrðing sem stenst alls ekki - óskiljanlegt
27.11.2020 kl. 06:59
Trausti Jörundarson, formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar, lýsir furðu á yfirlýsingu 17 skipstjórnarmanna hjá Samherja sem þeir sendu frá sér í gær og greint var frá hér á Akureyri.net. Trausti birti eftirfarandi á heimasíðu Sjómannafélagsins:
„Í ljósi greinar sem birtist á heimasíðu Samherja þar sem skipstjórar og stýrimenn Samherja skrifa grein um hvað allt umtal um þetta mál með frystitogarann Júlíus Geirmundsson hefur haft neikvæð áhrif á ímynd almennings til sjómanna eða eins og þeir skrifa sjálfir í greininni: „umræðan í kringum þetta mál hefur skaðað ímynd sjómannastéttarinnar í landinu, bæði yfirmanna og undirmanna.“ Þá langar mig að vita að hvaða leyti það skaðar ímynd undirmanna á fiskiskipum að félagar þeirra leiti réttar síns og fari fram á sjópróf til þess eins að fá það staðfest hvað og hvernig þetta gat gerst. Ég hef ekki orðið var við neitt nema jákvæðni í garð þessara manna sem þarna eru að berjast fyrir því að sannleikurinn komi uppá yfirborðið. Þess vegna spyr ég, hvaðan hafa þessir skipstjórnarmenn þessar upplýsinga og afhverju halda þeir að fólk sé neikvætt út í sjómenn? Fyrir mér er þetta gersamlega óskiljanlegt og fullyrðing sem stenst alls ekki.“