Fara í efni
Samherji

Fullar ferðatöskur af færavindum!

Bandaríski sjómaðurinn George Schile á athafnasvæði Slippsins á Akureyri í haust. Ljósmynd: Jóhann Ólafur Halldórsson.

Sumir ferðalangar sem sækja Akureyri heim eru öðruvísi en aðrir. Farangur sumra er í það minnsta óhefðbundinn; bandaríski sjómaðurinn George Schile, sem býr í grennd við Seattle á vesturströndinni og gerir út þaðan, er gott dæmi um það. Hann kom klyfjaður DNG færavindum í haust til þess að láta yfirfara þær og skoða sig um á Norðurlandinu fagra í leiðinni!

„Ég hef notað tækifærið í þessari stuttu heimsókn til að skoða landið ykkar svolítið og þið eigið sannarlega fallegt land og náttúru. Svo hef ég líka kíkt á bæina við sjávarsíðuna, fyrst og fremst til að skoða bátana. Til Íslands er ég að koma í fyrsta skipti og á örugglega eftir að koma aftur og þá með konuna mína með mér,“ segir George í skemmtilegri umfjöllun Jóhanns Ólafs Halldórssonar ritstjóra í vefblaðinu Sóknarfæri, sem Ritform gefur út.

Ódýrara að ferðast með vindurnar

Schile staldraði við á Akureyri fáeina daga og tilefnið var sannarlega áhugavert eins og áður greinir. Jóhann Ólafur segir frá því í Sóknarfæri að George keypti fyrir rúmum 20 árum fimm 6000i færavindur frá DNG á Akureyri „og þó að atvikin hafi hagað því þannig að minna varð á sínum tíma úr handfæraveiðinni en hann ætlaði þá er hann nú kominn með nýsmíðaðan plastbát í hendur og stefnan er á færaveiðar við Alaska í byrjun nýs árs. Lykilatriði í því plani er að nota færavindurnar frá DNG og eftir að hafa velt vöngum yfir miklum kostnaði við að senda vindurnar til yfirferðar hjá DNG á Akureyri sá George að ódýrara yrði fyrir hann að ferðast sjálfur með vindurnar alla leið til Íslands, bíða meðan starfsmenn DNG færu yfir búnaðinn og halda síðan heim á leið á nýjan leik. Ferðast sem sé yfir hálfan hnöttinn með fimm færavindur í farteskinu!“ segir í Sóknarfæri.

Ármann H. Guðmundsson þjónustustjóri DNG, lengst til vinstri, George Schile og Jón Melstað tæknimaður. Mynd úr Sóknarfæri.

„Ég held að Ármann þjónustustjóri hjá DNG hafi alls ekki trúað því í fyrstu þegar ég spurði hvort ég gæti ekki bara komið sjálfur með vindurnar til hans. Enda um langan veg að fara. En þetta gekk upp og starfsmenn DNG voru fljótir að fara yfir allan búnaðinn, laga það sem þurfti , uppfæra forrit og slíkt. Ég hafði þess vegna nokkra daga lausa til að skoða mig um á Norðurlandi,“ segir George sem býr ásamt fjölskyldu sinni í Bellingham, norður af Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna. Sjálfur er hann fæddur og uppalinn í Flórida en fór í háskólanám á vesturströndinni og hefur verið þar síðan.

Þessar vindur eru málið

Jóhann Ólafur greinir frá því að George hafi lengstum gert út 18 metra langan stálbát, hafi að mestu gert út á línu en einnig stundað krabbaveiðar í gildrur. „Ástæðan fyrir því að ég eignaðist á sínum tíma færavindurnar fimm frá DNG var sú að ég sá þær á bás fyrirtækisins á sjávarútvegssýningu í Seattle. Ég hafði aðeins kynnst færaveiðum og þegar ég sá vindurnar, sjálfvirknina og myndböndin af notkun þeirra þá var ég alveg viss um að þetta væri málið. Svo að ég keypti vindurnar en þegar til kom þá kom í ljós að báturinn var bæði of stór í þessar veiðar og óhentugur en svo spilaði kannski líka inní að maður hafði ekki þá þekkingu og reynslu sem ég hef í dag. Þess vegna hef ég ekki notaði vindurnar frá því árið 2003.“

Nú er George kominn með minni bát og hyggst snúa sér galvaskur að handfæraveiðum á þorski úti fyrir Alaska.

Smellið hér til að lesa blaðið Sóknarfæri. Greinin um George Schile er á bls. 4 og 5.