Fara í efni
Samherji

Færri heimsóknir og ýmsar hættur í sjónmáli

Íþyngjandi skattheimta á komur skemmtiferðaskipa hefur áhrif og komur skipa verða 42 færri á komandi ári en í ár. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Fyrirséð er að komur skemmtiferðaskipa í hafnir Hafnasamlags Norðurlands verði 42 færri árið 2025 en í ár. Þrátt fyrir afar góða stöðu og ýmis spennandi verkefni sem eru í gangi í hafnamálum, er það mat stjórnar HN að ýmsar hættur séu í sjónmáli.

Þar er helst vísað til ákvarðana stjórnvalda „varðandi íþyngjandi skattheimtu á komur skemmtiferðaskipa,“ eins og segir í fundargerð stjórnarinnar frá 11. desember. Von stjórnar HN er að stjórnvöld sjái að sér og nýti þær hugmyndir sem lagðar hafa verið fram, meðal annars frá Cruise Iceland og fleirum varðandi nýtt innviðagjald sem ganga út á að gjaldið verði innleitt í skrefum á næstu þremur til fjórum árum. „Með því munu stjórnvöld tryggja tekjustofn fyrir ríkissjóð til lengri tíma auk þess að verja byggðir landsins sem reiða sig á komur ferðamanna með skemmtiferðaskipum,“ segir ennfremur í fundargerð stjórnarinnar. 

Akureyri.net fjallaði ítarlega um skattheimtu og skemmtiferðaskip í nóvember - sjá hér.

Fram kemur í áðurnefndri fundargerð að ýmis spennandi mál séu í gangi, svo sem uppbygging á Torfunefssvæðinu og á Dysnesi, en ýmsar hættur í sjónmáli eins og áður sagði.