Fara í efni
Samherji

„Eitt besta skip sem ég hef stýrt á mínum ferli“

Guðmundur Þ. Jónsson, skipstjóri, uppi í brú þegar skipið lagðist að bryggju í morgun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

„Ég hef verið skipstjóri í um þrjátíu ár og ég held að það sé óhætt að fullyrða að þetta er eitt besta skip sem ég hef stýrt á mínum ferli,“ segir Guðmundur Þ. Jónsson, skipstjóri á Vilhelm Þorsteinssyni EA 11, nýja Samherjaskipinu sem kom til heimahafnar á Akureyri í morgun eins og fram kom hér á Akureyri.net.

Guðmundur segir að skipið sé framúrskarandi vel hannað. „Á siglingunni heim prófuðum við að lesta skipið með sjó og prófuðum að snúa því á fullri ferð og hallinn var mjög lítill. Skipið kom einstaklega vel út úr þessari siglingu heim,“ segir Guðmundur á heimasíðu Samherja.

Eins og best verður á kosið

Kristján Vilhelmsson, framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja, segir að allur aðbúnaður í nýja skipinu sé eins og best verður á kosið. „Skipið er stórt og það er mjög vel útbúið. Um borð er öll sú nýjasta tækni sem er fáanleg við meðferð afla og besta gerð af veiðarfærum sem við þekkjum. Skip af eins og þetta, sem er bæði með troll og nót, er með breytilega notkun á vélarafli. Þannig að við erum með tvær vélar í skipinu. Á heimasiglingunni notuðum við aðeins aðra þeirra og við þær aðstæður eyðir skipið mun minna,“ segir Kristján á heimasíðu Samherja. „Í skipinu eru klefar fyrir fimmtán manns auk sjúkraklefa. Þá er skipið einstaklega rúmgott og má þar nefna borðsal og tvær setustofur. Um borð er einnig líkamsræktaraðstaða og gufubað fyrir skipverja.“

„Frábært að sigla með skipinu heim“

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, sigldi með skipinu heim til Íslands frá Skagen. „Þetta er þriðja kynslóð uppsjávarskipa sem maður tekur þátt í að reka. Við ákváðum að fela Karstensens skipasmíðastöðinni þetta verkefni. Aðalhönnuðir skipsins starfa hjá stöðinni en starfsfólk Samherja hefur komið að þessu ferli með sínar hugmyndir, meðal annars varðandi orkunýtingu. Þannig má segja að skipið sé afrakstur samstarfs stöðvarinnar og okkar starfsfólks. Ég held að útkoman sé mjög góð og það var frábært að sigla með skipinu heim. Tímanum var vel varið með áhöfninni,“ segir Þorsteinn Már á heimasíðu fyrirtækisins.

Karstensens skipasmíðastöðin í Skagen Danmörku hannaði og smíðaði skipið eftir þörfum Samherja og naut ráðgjafar starfsfólks Samherja við verkið. Beðið hefur verið eftir skipinu með nokkurri eftirvæntingu en samningar um smíði þess voru undirritaðir 4. september 2018. Þann dag hefðu tvíburarnir Baldvin og Vilhelm Þorsteinssynir orðið 90 ára. Nýsmíðin leysir af hólmi eldri Vilhelm Þorsteinsson EA 11 sem kom nýr til landsins um síðustu aldamót.

Smellið hér til að lesa frásögnina á heimasíðu Samherja

Smellið hér til að sjá myndasyrpu sem Akureyri.net birti fyrr í dag.