Fara í efni
Samherji

Björgúlfur og Björg „eru eins og ný“

Björg EA 7 nýmáluð við bryggju í Slippnum.

Mörgum þykja fallega máluð og vel við haldin skip augnayndi og ekki að undra.

Nýbúið er að mála systurskipin Björgúlf EA 312 og Björgu EA 7 í Slippnum Akureyri auk þess sem unnið var að ýmsum endurbótum. „Ég held að áhugafólk um skip taki yfirleitt eftir nýmáluðum skipum, mér sýnist að minnsta kosti margir taki myndir af systurskipunum eftir að þau voru máluð svona vel og það er bara skemmtilegt,“ segir Kristján Vilhelmsson framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Samherja á vef félagsins.

Björgúlfur og Björg eru tvö af fjórum systurskipum sem smíðuð voru hjá Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Björgúlfur kom nýr til Akureyrar í júní 2017 og Björg í lok október sama ár.

Kristján segir að tími hafi verið kominn á hreinsun skrokka skipanna. „Þegar skipin voru byggð var vandað til allra verka og málningin hefur því enst mjög vel, aðeins hefur þurft að lagfæra skemmdir sem alltaf verða á skrokkum skipa. Núna létum við sem sagt háþrýstiþvo skrokka skipanna og mála. Þetta er nauðsynlegt að gera reglulega, fjarlægja gróður og þvo allt salt í burtu áður en málað er. Síðast en ekki síst stuðlar góð og markviss hreinsun að betri orkunýtingu og sparnaði í olíunotkun, þannig að hvatarnir eru margir í þessum efnum.“ 

Björgúlfur EA 312 í flotkví Slippsins. Mynd af vef Samherja

Meira hér á vef Samherja