Fara í efni
Samherji

Björgvin til veiða á ný eftir endurbætur

Björgvin EA nýmálaður við Togarabryggjuna í morgun. Mynd af vef Samherja.

Togarinn Björgvin EA 311 hélt til veiða á ný í dag eftir að hafa verið í slipp síðustu vikur þar sem sinnt hefur verið ýmis konar viðhaldi á skipinu. Stærstu verkþættir voru upptekt á aðalvél og viðhald á spilkerfi, þvottur og málun skipsins, ásamt ýmsum smáverkum. Verkið var unnið hjá Slippnum Akureyri. Þetta kemur fram á heimasíðu Samherja.

Þar segir að Björgvin EA hafi verið teiknaður af Bárði Hafsteinssyni skipaverkfræðingi og sé einn af mörgum togurum sem smíðaðir voru í Flekkefjord í Suður-Noregi. Skipið var smíðað árið 1988, kom til heimahafnar á Dalvík í fyrsta skipti hinn 26. júlí það ár og er því orðið 33 ára. Á vefnum segir að skipið hafi ávallt verið í góðu viðhaldi og áhöfnin hafi gætt þess að fara vel með skipið í gegnum árin.

Skrokklag skipsins hefur alltaf þótt býsna athyglisvert. Segja má að með hönnun skipsins hafi í fyrsta sinn verið þróað stefni sem Bárður Hafsteinsson útfærði síðan enn frekar við hönnun nokkurra togara sem smíðaðir hafa verið í Tyrklandi á síðustu árum og hafa reynst afar vel, segir á vef Samherja.