Fara í efni
Samherji

Bætt nýting og aukin verðmætasköpun

Hákon Rúnarsson, framleiðslustjóri ÚA á Akureyri. Mynd af vef Samherja.

Hátæknibúnaðurinn í fiskvinnsluhúsum Samherja á Dalvík og ÚA á Akureyri hefur reynst afar vel og gerir það að verkum að enn betur er hægt að verða við óskum viðskiptavina um sérskorin fiskstykki.

Á vef Samherja er haft eftir framleiðslustjóra ÚA að Samherji sé þekkt fyrirtæki á alþjóðlegum mörkuðum fyrir bitaskurð. Forstjóri fyrirtækisins segir mikilvægt að samvinna sjávarútvegsins og hátæknifyritækja sé sem best og farsælust.

„Hjörtu fiskvinnsluhúsanna við Eyjafjörðinn eru tæknilausnir frá Völku, sem nýverið sameinaðist Marel. Eftir forsnyrtingu fisksins taka vatnsskurðarvélar við, sem greina fiskinn og skera eftir óskum viðskipavina um víða veröld,“ segir á vef Samherja.

„Búnaðurinn svínvirkar“

„Samstarfið við Völku var á margan hátt einstakt. Við lögðum til okkar þekkingu og óskir, Valka sá svo um að þróa og hanna þennan vél- og tölvubúnað sem markaði á vissan hátt tímamót í bættri hráefnisnýtingu og aukinni verðmætasköpun í greininni. Núna er komin ágæt reynsla á búnaðinn er óhætt að segja að útkoman sé sérlega góð. Búnaðurinn svínvirkar, getum við sagt,“ segir Hákon Rúnarsson framleiðslustjóri ÚA á Akureyri.

Framleiðsla á sérskornum bitum tvöfaldast

Hákon segir að Samherji sé þekktur framleiðandi á alþjóðlegum mörkuðum fyrir bitaskurð. Hægt sé að verða við óskum viðskiptavina í hvívetna, kaupandinn ráði í raun og veru skurðinum.

„Við sáum strax ýmis tækifæri með tilkomu þessa nýja vélbúnaðar. Ég get nefnt sem dæmi að fljótlega þróuðum við sérskorna bita á þorskflökum sem hafa fengið afar góðar móttökur og framleiðslan hefur tvöfaldast.“ Hákon segir verð á þessum bitum hafa farið hækkandi enda hafi þeir slegið í gegn, þökk sé getu vatnsskurðarvélanna.

Mikill hraði í vöruþróun

Valka hefur nú sameinast Marel, eins og fyrr segir. Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja undirstrikar mikilvægi þess að hátækniiðnaður á Íslandi verði sem öflugastur í framtíðinni.

„Hraðinn í vöruþróun er mikill og við Íslendingar erum í harðri alþjóðlegri samkeppni. Þessi nýi búnaður opnaði fljótlega ýmsar nýjar dyr í framleiðslu- og markaðsmálum. Viðhaldið og uppfærslur fara oft á tíðum fram utan hefðbundins vinnutíma og fyrirvarinn getur verið skammur. Starfsfólk Samherja og ÚA hefur unnið við afar krefjandi aðstæður á undanförnum mánuðum vegna heimsfaraldursins.

Við slíkar aðstæður sannast mikilvægi þekkingar og samstöðu berlega. Það skiptir íslenskan sjávarútveg og þjóðarbúið miklu máli að samvinna greinarinnar og hátæknifyrirtækjanna sé sem best og farsælust, þannig náum við árangri og getum verið áfram leiðandi í heiminum í sjávarútvegi. Búnaðurinn frá Völku er gott dæmi um hversu framarlega við Íslendingar stöndum, tækifæri morgundagsins er því að fyrirtækin byggi á því besta frá báðum. Með sameiningu Völku við Marel skapast klárlega ýmis tækifæri,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja á vef fyrirtækisins.