Fara í efni
Samherji

„Akureyrarbær hefur misst tökin“

Á þessari loftmynd (skjáskot af já.is) má sjá ökutæki og önnur tæki sem lagt hefur verið í Goðanesi götunni. Akureyri.net hefur ekki upplýsingar um tímasetningu á þessu loftkorti á já.is.

Bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins segja Akureyrarbæ hafa misst tökin á málum er varðar lagningu og geymslu ökutækja, vinnuvéla, gáma og annarra tækja og tóla innan bæjarmarkanna. Þá furða þeir sig á því að meirihlutinn í bæjarstjórn snéri við ákvörðun umhverfis- og mannvirkjaráðs að sækja um lóð undir geymslusvæði og taldi ekki þörf á því. 

Þetta kemur fram í bókun þeirra Sunnu Hlínar Jóhannesdóttur og Gunnars Más Gunnarssonar þegar ákvörðun skipulagsráðs frá 9. október um bann við lagningu ökutækja og annarra tækja í Goðanesi var rædd á fundi bæjarstjórnar á þriðjudaginn. Bæjarstjórn samþykkti afgreiðslu skipulagsráðs með 11 samhljóða atkvæðum.

Skipulagsráð einróma

Akureyri.net fjallaði um ákvörðun skipulagsráðs fyrr í vikunni, en málið var á dagskrá bæjarstjórnarfundar á þriðjudaginn. Forsagan er í stuttu máli að skipulagsráð bannaði lagningu tækja sunnan og vestanmegin í Goðanesinu í janúar 2023, til að bregðast við ábendingum um að tæki í götunni hindruðu umferð. Þrátt fyrir þessa breytingu hafa borist fjölmargar ábendingar um að ástandið hafi ekki lagast mikið og oft skapist hætta vegna þrengsla vestast í götunni. Skipulagsráðs sá sig þá knúið til að ganga lengra og banna alfarið lagningu tækja í Goðanesinu að höfðu samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra. 

Halla Björk Reynisdóttir (L), forseti bæjarstjórnar og formaður skipulagsráðs, fór stuttlega yfir málið á fundinum og sagði að auðvitað vildu bæjaryfirvöld gjarnan að fólk geymdi sín ökutæki og vinnutæki inni á lóð sem það hefur sjálft til umráða, „en þegar ítrekaðar beiðnir frá bæjaryfirvöldum um að ganga betur um og geyma sín tæki innan lóðar ganga ekki eða hafa ekki áhrif þá er svo komið að við ætlum að prófa þetta. Við vorum einróma í skipulagsráði um að banna alfarið lagningu ökutækja,“ sagði Halla Björk um áðurnefnda ákvörðun um bann við lagningu í götunni. 

Nota land Akureyrarbæjar sem lagersvæði

Sunna Hlín Jóhannesdóttir (B), sem á sæti í skipulagsráði, kvaddi sér hljóðs undir þessum lið og gagnrýndi aðgerðarleysi bæjaryfirvalda í þessum málum og sagði að mörgu leyti sorglegt að vera komin á þann stað að þurfa að fara í lögreglusamþykktir til að fást við mál eins og hér um ræðir í Goðanesinu. Sunna lýsti því að hún hafi farið í bíltúr um Goðanesið til að kynna sér ástandið og kvaðst hafa orðið miður sín að sjá umgengnina í svona nýlegu hverfi, þó vissulega væru undantekningar. Hún tók dæmi sem sýndi hve slæmt ástandið væri að við vegkantinn í Baldursnesi, þar sem beygt er inn Baldursnesið fyrir neðan Byko, væri búið að raða gámum og alls konar tólum og tækjum upp allan veginn að gatnamótum inn í Goðanes. „Þetta er allt á landi Akureyrarbæjar og mér sýnist að þarna séu fyrirtæki farin að nota þetta sem lager fyrir sína starfsemi. Ég veit ekki alveg á hvaða vegferð við erum, svo ekki sé talað um nýjan bílakirkjugarð í Krossanesi,“ sagði Sunna Hlín meðal annars.

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

„Ætlum við bara að hafa þetta svona? Það er heilmikið um fögur fyrirheit, en fátt um efndir,“ sagði Sunna Hlín og lagði fram bókun ásamt flokksfélaga sínum Gunnari Má Gunnarssyni. 

„Það er óásættanlegt að ganga þurfi svo langt að banna alfarið með lögreglusamþykkt að leggja í Goðanesi og sýnir að bærinn hefur misst tökin á þessum málum. Víðsvegar um bæinn má sjá tækjum, gámum og dóti lagt í leyfisleysi. Samþykkt var í vinnu við nýja umhverfis- og loftslagsstefnu Akureyrarbæjar að ráða starfsmann til að fara í umgengnismál og eru það mikil vonbrigði að það starfshlutfall hefur síðan ekki ratað inn í fjárhagsáætlun næsta árs. Í stefnunni kemur einnig fram að koma eigi upp vöktuðu geymslusvæði. Það kom því spánskt fyrir sjónir þegar meirihlutinn snéri við ákvörðun umhverfis- og mannvirkjaráðs að sækja um lóð undir geymslusvæði og taldi ekki þörf á því. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands hefur kallað eftir úrræðum í nokkurn tíma og þörfin er greinilega fyrir hendi, fyrir almenning og fyrirtæki til að greyma ökutæki, vagna, vinnuvélar, gáma og aðra lausamuni. Því miður er alltof mikið um fögur fyrirheit hér, en fétt um efndir.“

Upptöku frá umræðum um þetta mál á bæjarstjórnarfundinum í fyrradag má sjá í spilaranum hér að neðan.