Fara í efni
Samherji

40 ár síðan Akureyrin kom úr fyrsta túrnum

Arngrímur Brynjólfsson, Knútur Eiðsson og bræðurnir Hreinn og Pétur Pálmasynir fagna í borðsalnum á Akureyrinni á heimstími eftir fyrsta túrinn. Myndir: Samherji

Nákvæmlega fjörutíu ár eru í dag liðin frá því frystitogarinn Akureyrin EA 10, fyrsta skip Samherja, kom úr sinni fyrstu veiðiferð, 23. desember 1983. Þetta er rifjað upp á heimasíðu fyrirtækisins í morgun og birtar stórskemmtilegar myndir úr túrnum.

Frændurnir Kristján Vilhelmsson, Þorsteinn Már Baldvinsson og Þorsteinn Vilhelmsson höfðu fyrr á árinu keypt nær allt hlutafé Samherja hf. í Grindavík, sem gerði út togarann Guðstein GK 140 og fluttu þeir frændur starfsemina til Akureyrar.

Guðsteinn GK kom til nýrrar heimahafnar 1. maí 1983 og var nafni skipsins breytt í Akureyrin EA 10.

„Um sumarið og fram á haust var unnið hörðum höndum við breytingar og endurbætur á skipinu í Slippstöðinni á Akureyri. Akureyrin fór í prufutúr í lok nóvember og í desember var farin fyrsta veiðiferðin. Skipið kom til Akureyrar á Þorláksmessu, 23 desember, vegna jólafrís skipverja,“ segir á vef Samherja.

Eigendurnir þrír um borð í Guðsteini vorið 1983. Frá vinstri: Kristján Vilhelmsson, Þorsteinn Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson.
„Akureyrin var afar farsælt skip og var ár eftir ár meðal þeirra skipa sem skiluðu mestu aflaverðmæti. Árið 2013 var gamla Akureyrin seld, eftir að hafa verið í eigu Samherja í þrjátíu ár.“

Síðan segir: „Samherji hefur vaxið og dafnað á þessum fjörutíu árum og nú landa nokkur skip félagsins í viku hverri, enda vinnsluhús félagsins afkastamikil.

Í skjalasafni Samherja eru varðveitt skjöl er tilheyra fyrstu veiðiferðinni, svo sem tilkynning til bæjarfógetans á Akureyri um áhöfn skipsins og uppgjör vegna veiðiferðarinnar. Hásetahluturinn var kr. 34.935,67 auk orlofs kr. 3.556,96. 23.desember, Þorláksmessa, er því einn af mörgum merkisdögum í sögu Samherja.“

Akureyrin nýskveruð og fín í reynslusiglingu á Eyjafirði eftir breytingar í Slippstöðinni. Skipið hélt svo á veiðar í prufutúr þann 24. nóvember 1983.

Þorsteinn Vilhelmsson skipstjóri með ryksuguna á lofti á landstími. Efst fyrir miðju er lítill sjónvarpsskjár sem sýndi svart/hvíta mynd af gangi mála á millidekkinu. Strákarnir voru í fyrstu ekki of hrifnir af þessum skjá og kölluðu hann Stöð 2. Samnefnd sjónvarpsstöð var ekki til á þessum árum.

Smellið hér til að sjá fleiri myndir úr fyrsta túr Akureyrarinnar EA 10