Fara í efni
Samherji

2060 tonn af loðnu, enginn skipverji í land

Vilhelm Þorsteinsson EA kemur í fyrsta sinn til heimahafnar á Akureyri, í byrjun apríl á síðasta ári. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Vilhelm Þorsteinsson EA, skip Samherja, landaði í gær 2.060 tonnum af loðnu í Neskaupstað og fer hluti aflans til manneldis í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Athygli vekur að enginn úr áhöfn skipsins fór í land og er skipið í raun í sóttkví, að sögn skipstjórans. Þetta kemur fram á vef Samherja.

Þetta var annar loðnutúr Vilhelms á árinu, skipið hélt aftur á loðnumiðin í morgun.

Til þessa hefur öll loðna sem borist hefur til Síldarvinnslunnar á vertíðinni farið til framleiðslu á mjöli og lýsi en eftir því sem loðnan stækkar er hægt að frysta loðnuna til manneldis. Birkir Hreinsson skipstjóri segir að bræla á miðunum hafi gert flotanum erfitt fyrir síðustu sólarhringana.

„Veiðin hefur verið skást á morgnana og seinni partinn. Stærsta holið í þessum öðrum túr ársins var um 450 tonn, annars voru þau um og yfir 100 tonn. Þannig að þetta var nudd á okkur. Loðnan er hins vegar að stækka, sem þýðir að hægt er að vinna hana til manneldis og hluti aflans var frystur,“ segir Birkir á vef Samherja.

Um tíu klukkustunda sigling er á miðin og hélt Vilhelm til veiða á ný strax og búið var að dæla aflanum í land til vinnslu.

Enginn úr áhöfninni fór í land, sem fyrr segir; „skipið er í raun og veru sóttkví. Löndunargengið þurfti að athafna sig á framdekkinu, annars kom enginn um borð. Við förum eins varlega og hægt er á tímum Covid-19. Þetta er náttúrulega erfið og snúin staða en það er ekkert annað í boði,“ segir Birkir Hreinsson.

Guðmundur Þ. Jónsson og Birkir Hreinsson eru skipstjórar á Vilhelm Þorsteinssyni. Ljósmynd: Þórhallur Jónsson