Fara í efni
Samherji

2024 – Leikið á allan tilfinningaskalann

Akureyrskir íþróttamenn voru mikið í sviðsljósinu árið 2024 sem endranær og Akureyri.net fylgdist grannt með. Margir fögnuðu glæsilegum árangri og hér verður stiklað á stóru; nefna má að KA-menn urðu bikarmeistarar í knattspyrnu í fyrsta skipti, kvennalið félagsins í blaki varð Íslandsmeistari, Hafdís Sigurðardóttir var besta hjólreiðakona landsins sem fyrr, bogfimifólk bæjarins stóð sig með mikilli prýði, nokkrir KA-menn urðu Íslandsmeistarar í klassískum kraftlyftingum og Akureyringurinn Sóley Margrét Jónsdóttir, sem keppir fyrir Breiðablik, varð heimsmeistari í kraftlyftingum með búnaði. Þá setti Baldvin Þór Magnússon hlaupari úr UFA nokkur Íslandsmet og Sandra María Jessen fyrirliði Þórs/KA var kjörin besti leikmaður Íslandsmótsins í knattspyrnu og varð markadrottning Bestu deildarinnar.

Akureyri.net hefur undanfarna daga rifjað upp eitt og annað sem gerðist á nýliðnu ári. Með þessari upprifjun á íþróttaárinu 2024 lýkur þeirri yfirferð.

Snemma árs var besta íþróttafólk bæjarins árið 2023 heiðrað; Sandra María Jessen knattspyrnukona úr Þór/KA var kjörin íþróttakona Akureyrar og Baldvin Þór Magnússon hlaupari úr UFA íþróttakarl Akureyrar. Bæði áttu eftir að koma mikið við sögu á árinu.

Baldvin bætti 44 ára ára gam­alt Íslands­met í 1.500 metra hlaupi innanhúss í febrúar, í maí setti hann Íslandsmet í 5000 m hlaupi og í júlí bætti Baldvin eigið Íslandsmet í 1500 m hlaupi.

 

Pílukast verður sífellt vinsælla og fljótlega eftir að Þórsarar stofnuðu píludeild varð hún sú fjölmennasta á landinu. Á árinu varð Hrefna Sævarsdóttir Íslandsmeistari öldunga og skemmtilegt mót sem haldið er í Sjallanum, Sjally Pally, festi sig í sessi, og Matthías Örn Friðriksson, sem á árinu gekk til liðs við Þór varð Íslandsmeistari í krikket, sem er ein grein pílukastsins.

 

Alex Cambrey Orrason, kraftlyftingamaður í KA, bætti Íslandsmetið í samanlögðum árangri í -93ja kg flokki á Evrópumótinu í maí og í haust urðu fjórir KA-menn Íslandsmeistarar í klassískum kraftlyftingum.

 

Kvennalið Þórs í körfubolta vakti mikla athygli á árinu. Stelpurnar léku til úrslita í bikarkeppninni og þrátt fyrir frábæran stuðning fjölda fólks urðu þær að játa sig sigraðar gegn besta liði landsins á þeim tíma, liði Keflvíkinga. Liðin mættust aftur í haust í leik um titilinn meistari meistaranna og þá náðu Þórsstelpurnar fram hefndum.

 

Í apríl stökk Ryoyu Kobayash 291 metra á skíðum af sérútbúnum stökkpalli í Hlíðarfjalli. Þetta er það lengsta sem nokkur skíðastökkvari hefur náð, en þó ekki viðurkennt heimsmet af Alþjóða skíðasambandinu þar sem stökkið var ekki í viðurkenndu móti á vegum sambandsins heldur sérstakur viðburður fyrir einn stökkvara á vegum fyrirtækis en ekki íþróttasambands. Viðurkennt heimsmet er 253,5 metrar, en það á Stefan Kraft frá því á heimsbikarmóti í Noregi 2017.

 

  • Þorvaldur Örlygsson varð í febrúar formaður Knattspyrnusambands Íslands, fyrstur Akureyringurinn. Þorvaldur, sem er fyrrverandi leikmaður og þjálfari KA, hafði betur eftir baráttu við annan KA-mann, Vigni Má Þormóðsson, sem lengi var í stjórn KSÍ, og Valsarann Guðna Bergsson, fyrrverandi formann KSÍ.

 

Kristjana Ómarsdóttir, 15 ára Akureyringur, varð Evrópumeistari unglinga í hópfimleikum með landsliði Íslands.

 

Kvennalið KA í blaki varð Íslandsmeistari eftir sigur á Aftureldingu í ótrúlegum leik í Mosfellsbæ. Þetta var þriðja árið í röð sem KA-stelpurnar fagna Íslandsmeistaratitli og liðið varð svo meistari meistaranna í haust, sigraði þá bikarmeistara Aftureldingar.

 

Meistaraflokkslið bæjarins í handbolta náðu ekki þeim árangri sem vonast var til vorið 2024. KA-menn komust að vísu í úrslitakeppni Olísdeildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins, en duttu út strax í átta liða úrslitum, Þórsarar töpuðu naumlega stórskemmtilegu úrslitaeinvígi um sæti í efstu deild, og kvennalið KA/Þórs féll úr Olísdeildinni.

 

Betur gekk í yngri flokkum í handboltanum. Eitt lið varð bæði Íslands- og bikarmeistari, stelpurnar á yngri ári 6. flokks í KA/Þór, árgangur 2012. Strákarnir í 3. flokki KA urðu bikarmeistarar, stelpurnar á eldra ári í 6. flokki KA/Þórs sömuleiðis og KA strákar á yngri ári 5. flokks fengu silfurverðlaun. Dagur Árni Heimisson, einn bikarmeistaranna í 3. flokki, tók þátt í Evrópumóti 18 ára og yngri með landsliði Íslands í ágúst og var valinn í úrvalslið mótsins. Íslendingar töpuðu bronsleiknum og urðu því í fjórða sæti.

 

KA varð bikarmeistari karla í knattspyrnu eftir frækinn 2:0 sigur á ríkjandi bikarmeisturum Víkings á Laugardalsvelli við mikinn fögnuð fjölda stuðningsmanna félagsins. Liðin mættust einnig í úrslitum árið áður og þá fögnuðu Víkingar sigri en að þessu sinni KA-menn hömpuðu bikarnum – í fyrsta skipti, í fimmtu tilraun. Sigurinn var verðskuldaður og bikarinn fór því loks til Akureyrar eftir 55 ár bið, síðan ÍBA varð bikarmeistari 1969.

KA gekk hins vegar ekki vel á Íslandsmótinu og þar má einkum kenna um afleitri byrjun. Liðið vann aðeins einn leik af fyrstu níu og þegar KA-strákarnir hrukku í gang var það of seint; þeir komust ekki í keppni sex efstu liða þegar deildinni var skipt í tvennt eftir tvöfalda umferð en urðu í efsta sæti neðri hlutans annað árið í röð. Sigur í bikarkeppninni varð hins vegar til þess að KA-menn gátu gengið glaðir inni í veturinn. 

 

Þórsarar styrktu handboltalið sitt verulega í sumar þegar þrír uppaldir félagsmenn komu heim; Oddur Gretarsson, Hafþór Vignisson og Þórður Tandri Ágústsson sneru allir aftur og Þórsliðið hefur verið á fljúgandi siglingu í haust. Liðið er efst í næst efstu deild Íslandsmótsins og stefnir hraðbyri upp í Olísdeildina.

 

Keppendur frá Íþróttafélaginu Akri náðu framúrskarandi góðum árangri á Íslandsmeistaramótinu í bogfimi. Þegar upp var staðið voru sex gullverðlaun komin í hús ásamt nokkrum silfur- og bronsverðlaunum, samtals 13 verðlaun sem komu í hlut keppenda frá Akri.

 

Andrea Ýr Ásmundsdóttir sigraði með miklum yfirburðum á meistaramóti Golfklúbbs Akureyrar og varð þar með Akureyrarmeistari þriðja árið í röð og í fimmta skipti alls. Valur Snær Guðmundsson varð Akureyrarmeistari karla í fyrsta skipti eftir frábæra frammistöðu á fjórða og síðasta degi.

Bryndís Eva Ágústsdóttir og Veigar Heiðarsson urðu Íslandsmeistarar í unglingaflokkum í golfi, bæði annað árið í röð. Bryndís Eva varð Íslandsmeistari í flokki 15-16 ára og Veigar í flokki 17-18 ára.

 

Fimmtán ára drengir úr röðum Ungmennafélags Akureyrar gerðu sér lítið fyrir og röðuðu sér í fjögur efstu sætin í fimmtarþraut 15 ára drengja á Meistaramóti Íslands í fjölþraut.

 

Stelpurnar okkar í 2. flokki náðu þeim glæsilega árangri að verða bæði Íslandsmeistarar og bikarmeistarar í knattspyrnu. Liðið kallaðist í sumar Þór/KA/Völsungur/THK – kennt við Þór og KA auk Völsungs frá Húsavík og sameiginlegt lið Tindastóls frá Sauðárkróki, Hvatar frá Blönduósi og Kormáks á Hvammstanga.

 

Þórsarar urðu Íslandsmeistarar í 3. flokki karla í knattspyrnu í haust eftir að hafa unnið sameiginlegt lið ÍA, Skallagríms og Víkings frá Ólafsvík, örugglega, 5:2, á Akranesi í síðasta leik beggja í mótinu.

 

KA-menn urðu Íslandsmeistarar 2. aldursflokks í knattspyrnu í fyrsta skipti þegar þeir sigruðu Stjörnuna 2:1 á heimavelli. Til að gæta fyllstu nákvæmni er rétt að taka fram að Íslandsmeistararnir eru sameiginlegt lið KA, Dalvíkur, Magna á Grenivík, KF í Fjallabyggð og Hattar á Egilsstöðum.

 

Brynjar Páll Jóhannsson úr Ungmennafélagi Akureyrar varð Íslandsmeistari í hástökki fullorðinna innanhúss. Brynjar Páll, sem er aðeins 16 ára, stökk 1,82 m.

 

Tryggvi Snær Hlinason var valinn körfuknattleikskarl ársins af KKÍ.

 

Stefanía Daney Guðmundsdóttir úr UFA varð fjórfaldur Norðurlandameistari í frjálsíþróttum; í 100 og 200 metra hlaupi, langstökki og spjótkasti, í T20 fötlunarflokki.

 

Nökkvi hélt í ágúst Íslandsmótið í siglingum á kænum. Nökkvafólk vann ein gullverðlaun, tvenn silfurverðlaun og tvenn bronsverðlaun.

 

  • Akureyringar sáu á eftir Íslandsbikarnum í íshokkí karla til Reykjavíkur annað árið í röð. Lið Skautafélags Reykjavíkur sigraði Skautafélag Akureyrar í æsispennandi oddaleik á Akureyri.
  • Ótrúlegt, en satt, þá varð kvennalið SA einnig að „lána“ Íslandsbikarinn suður eins og það var orðað í gamni. Fjölnir vann lið SA 1:0 í fjórða og síðasta úrslitaleiknum.

 

Jóna Jónsdóttir var á árinu kjörin formaður Íþróttabandalags Akureyrar í stað Geirs Kristins Aðalsteinssonar sem gegnt hafði embættinu í 10 ár og gaf ekki kost á sér áfram.

 

Dagur Gautason var í vor kjörinn besti vinstri hornamaður í efstu deild norska handboltans þann veturinn. Það eru leikmenn deildarinnar sem kjósa þann besta í hverri stöðu. Dagur fór frá KA til ØIF Arendal í Noregi sumarið 2023 og hefur staðið sig gríðarlega vel.

 

Ólöf Björk Sigurðardóttir, eða Ollý eins flestir þekkja hana, hætti sem formaður íshokkídeildar Skautafélags Akureyrar eftir að hafa gegnt því embætti í 20 ár. Við formennsku tók Elísabet Inga Ásgrímsdóttir.

 

Tveir Akureyringar þjálfa nú handboltalið í efstu deild í Þýskalandi. Rúnar Sigtryggsson framlengdi í ár samning við sinn við og Arnór Þór Gunnarsson var ráðinn annar tveggja aðalþjálfara Bergischer HC, langt á undan áætlun eins og hann komst að orði. Alfreð Gíslason er landsliðsþjálfari Þýskalands sem fyrr og Arnór Atlason aðalþjálfari TTH Holstebro í Danmörku, auk þess sem hann er aðstoðarþjálfari Snorra Steins Guðjónssonar landsliðsþjálfara Íslands.

 

Hafdís Sigurðardóttir úr Hjólreiðafélagi Akureyrar er besta hjólreiðakona Íslands. Hún varð tvöfaldur Íslandsmeistari, vann titilinn bæði í götuhjólreiðum og í tímatöku. Þetta var þriðja árið sem Hafdís náði þeim árangri.

 

Fimm Þórsarar voru í landsliðshópi 17 ára og yngri í knattspyrnu sem tók þátt í undankeppni EM í nóvember, fleiri en frá nokkru öðru félagi sem er sannarlega athyglisvert. Ísland vann Norður-Makedóníu og Eistland en gerði 2:2 jafntefli gegn firnasterku liði Spánverja. Sigurður Jökull Ingvason stóð allan tímann í marki Íslands gegn Spáni og átti mjög góðan leik en sat á bekknum fyrri tvo leikina. Egill Orri Arnarsson bar fyrirliðaband Íslands í öllum leikjunum, Einar Freyr Halldórsson var í byrjunarliðinu í öllum leikjunum þremur og lék á miðjunni. Sverrir Páll Ingason byrjaði sömuleiðis alla leiki Íslands í stöðu hægri bakvarðar og Ásbjörn Líndal Arnarsson lék í hjarta varnarinnar gegn Norður Makedóníu og Eistlandi en í leiknum gegn Eistlandi skoraði Ásbjörn eitt þriggja marka íslenska liðsins áður en hann fékk að líta rautt spjald, sem þýddi að hann var í leikbanni gegn Spánverjum.

 

Lið Ungmennafélags Akureyrar (UFA) varð bikarmeistari 15 ára og yngri þegar bikarkeppni Frjálsíþróttasambands Íslands fór fram á Kópavogsvelli í ágúst. Þetta er í fyrsta skipti i sögu UFA sem þessi titill vinnst.

 

Danska meistaraliðið FC Midtjylland keypti tvo stórefnilega knattspyrnumenn af Þór á árinu. Varnarmaðurinn Egill Orri Arnarsson skrifaði undir samning við danska félagið í mars, á 16 ára afmælisdaginn, en lék með Þór þar til 1. júlí að félagaskiptaglugginn í Danmörku var opnaður. Markvörðurinn Sigurður Jökull Ingvarsson fór síðan sömu leið og Egill Orri í ágúst.

 

Það vakti eðlilega mikla athygli þegar Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í knattspyrnu til fjölda ára, gekk til liðs við Þór í sumar. Hann tók þátt í nokkrum leikjum og gerði fyrsta markið fyrir meistaraflokk uppeldisfélagsins. Þórsarar áttu í erfiðleikum í sumar en sluppu við fall og í haust samdi Aron Einar við lið í Katar, þar sem hann lék síðustu ár. Von er á honum til Þórs aftur í vor.

 

Sandra María Jessen fór á kostum með knattspyrnuliði Þórs/KA á árinu. Bronsið rann stelpunum úr greipum í síðustu umferð Íslandsmótsins en Sandra María varð langmarkahæst í deildinni og til að kóróna frábært keppnistímabil var hún kjörinn besti leikmaður Bestu deildarinnar af leikmönnum liðanna.

Sandra náði þeim merka áfanga á árinu að rjúfa 100 marka múrinn á Íslandsmótinu og varð þar með fyrsti Akureyringurinn sem nær þeim árangri með Akureyrarliði. Af því tilefni rifjaði Akureyri.net upp ýmis söguleg og eftirminnileg mörk hennar í gegnum tíðina.

 

Þórsarar halda úti öflugri rafíþróttadeild og þar á bæ fögnuðu menn tveimur Íslandsmeistaratitlum á árinu, annars vegar í skotleiknum Counter Strike, hins vegar í bílafótboltaleiknum Rocket League.

 

Akureyringurinn Sóley Margrét Jónsdóttir, sem keppir undir merkjum Breiðabliks, varði Evrópumeistaratitilinn í kraftlyftingum með búnaði í maí og síðla árs varð hún heimsmeistari fullorðinna. Sóley Margrét lyfti samtals 710 kg, 40 kg meira en sú sem varð í öðru sæti í þyngdarflokknum. Þá setti Sóley Margrét eitt heimsmet í unglingaflokki.

 

Ármann Ketilsson, yfirþjálfari krílahópa hjá fimleikadeild KA, var valinn þjálfari ársins hjá Fimleikasambandi Íslands.

 

Maddie Sutton, fyrirliði kvennaliðs Þórs í körfuknattleik, lék gríðarlega vel á árinu. Í byrjun desember afrekaði hún ná 50 framlagsstigum í einum leik sem er fáheyrt; hún skoraði 18 stig, tók 24 fráköst og átti 17 stoðsendingar. Þessi þrenna er sú næststærsta í sögu deildarinnar.

 

Glæsileg íþróttahátíð var haldin í Boganum laugardaginn 7. desember í tilefni 80 ára afmælis Íþróttabandalags Akureyrar sem var 20. desember. Þar kynntu flest aðildarfélög ÍBA starfsemi sína.

 

Íþróttafélagið Akur, sem upphaflega hét Íþróttafélag fatlaðra á Akureyri, var stofnað 7. desember 1974. Sama dag og ÍBA hélt hátíðina í Boganum varð Akur því 50 ára – og haldið var upp á daginn þar sem ýmsir félagar í Akri voru heiðraðir.