Safnkosturinn
Yfirþernan Molly og morðrannsóknin
15.04.2025 kl. 06:00

AF BÓKUM – 22
Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri segir lesendum Akureyri.net alla þriðjudaga frá bók eða bókum. Uppátækið vekur vonandi athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir áhuga sem flestra á bóklestri.
Í dag skrifar Eydís Stefanía Kristjánsdóttir_ _ _
Leynigesturinn eftir Ninu Prose
Leynigesturinn er sjálfstætt framhald bókarinnar Þernan. Í bókinni fylgjumst við með Molly sem er þerna á glæsilega hótelinu Regency Grand. Molly er nú orðin yfirþerna á hótelinu og gengur vel í starfi. Það kemur skýrt fram í bókinni að Molly er sérstök, myndi líklegast teljast einhverf. Hún tekur eftir smáatriðum sem aðrir taka ekki eftir sem kemur sér vel þegar morð er framið á hótelinu. Frægur rithöfundur sem Molly þekkti úr æsku er myrtur og við ferðumst því á milli fortíðar og nútíðar til þess að komast að því hvers vegna hann var myrtur og hver myrti hann. Rithöfundurinn frægi átti sér nefnilega stórt leyndarmál.
Lögreglan fylgist vel með Molly sem liggur í fyrstu undir grun en það er ekki í fyrsta skipti sem hún er grunuð um morð. Í fyrri bókinni er hún grunuð um að myrða gest á hótelinu. Hún kannast því vel við rannsóknarlögreglumanninn sem stjórnar rannsókninni og fer að aðstoða hana við að rannsaka málið og komast að því hver morðinginn er.
Það er gaman að fylgja Molly eftir í rannsókninni, sjá hversu vel hún tekur eftir minnstu smáatriðum og hvernig hún nær að raða saman brotum úr fortíðinni og nútíðinni til þess að komast að leyndarmáli rithöfundarins og finna morðingjann.
Molly lifir mjög einföldu og skipulögðu lífi. Hún er ánægð með líf sitt og stolt af því að vera þerna. Hún ólst upp með ömmu sinni sem var þerna og hafði alltaf viljað feta í fótspor hennar. Molly var afbragðs námsmaður en þar sem hún átti í erfiðleikum með félagsleg tengsl var hún sögð á eftir samnemendum sínum og látin taka sama bekkinn tvisvar. Hún hafði því ekki mikið sjálfstraust og fólk, annað en amma hennar hafði ekki mikla trú á henni. Í lok bókarinnar sér hún þó að hún er meira virði og getur náð lengra. Hún gæti jafnvel orðið rannsóknarlögreglumaður.
Núna er einmitt Einstakur apríl og því tilvalið að lesa bók um manneskju með einhverfu.