Fara í efni
Safnkosturinn

Söfnin okkar: Jólaskrá – Veðurspáfræði

SÖFNIN OKKAR – VFrá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það verður gert vikulega, á fimmtudögum.

Núna er komin þíða en um skeið hafa verið froststillur, með heiðskírum himni og litadýrð. Birtan hefur verið slík að það hefur jafnvel gleymst að núna er sá tími ársins sem dagarnir eru stystir og skemmdegismyrkur venjulega alls ráðandi. Sáum við þetta fyrir; var eitthvað sem gaf til kynna að núna um miðjan mánuðinn myndi veðrið breytast?

Sennilega hefur fátt jafn mikil áhrif á líf okkar Íslendinga og birtan og veðrið og alltaf er stutt í umræður um veðrið. Á skjalasöfnum er varðveitt talsvert af efni sem tengist veðri, s.s. frásagnir af óveðrum og tíðarfari og í flest öllum dagbókum eru einhverjar veðurlýsingar. Önnur dæmi er ýmis veðurspeki og veðurspáfræði eða leiðbeiningar til þess að sjá fyrir um veður. Líklega myndi það efni flokkast sem hjátrú eða jafnvel skemmtiefni enda kemur efnið okkur nútímafólki oftar en ekki skringilega fyrir sjónir.

Að þessu sinni drögum við fram gamla veðurspáfræði og er yfirskriftin Jólaskrá. Upphafið er svona, að nokkru fært til nýrri ritháttar:

Jólaskrá

Lítil búmannaregla eftir daglegri reynslu saman skrifuð.

Á jólanóttina taka menn vara hvursu að viðra muni árið um kring.

Ef hreint veður og klárt, kyrrt og regnlaust er á jólanóttina og á aðfangadagskvöldið þá halda menn verði friðsamt ár og svo þar á móti ef annað viðrar.

Ef illt veður er og standi vindur af sólaruppgönguátt, þá þykir líklega til fjárskaða en standi af niðurgönguátt eða réttur norðri það merkir friðsamt ár og gott. Standi vindur af miðdegisátt, það merkir krankhætt eða sóttsama tíma.

Handritið er fimm blöð (tíu síður) í vasabókarbroti, með kápu utan um. Tvær rithendur eru á handritinu. Innan á kápu að framan er skrifað nafnið Jón Rögnvaldsson, sem getur hjálpað til við að ársetja handritið. Jón var fæddur í Fífilgerði árið 1833 og varð síðar bóndi á Ytri-Varðgjá, Eyrarlandi og Leifsstöðum. Hann flutti að Mýri í Bárðardal 1883 og síðan 1889 til Kanada. Hann lést í Kanada 1903. Kona Jóns var Guðný Hallgrímsdóttir.

Það var Kristján Rögnvaldsson sem afhendi handritið 1979. Jón var ömmubróðir Kristjáns.

Lesendur geta kannski gert sér það að leik núna um jólin að lesa handritið í heild sinni. Það er hér að neðan.