Safnkosturinn
Lumar einhver á tjörusjampóbrúsa?
04.11.2024 kl. 11:00
Fjallað var um tjörusjampó síðastliðinn fimmtudag í vikulegu innliti Akureyri.net á eitthvert safna bæjarins. Sjónum var þá beint að Iðnaðarsafninu þar sem kennir margra grasa enda af nógu að taka úr fjölbreyttri framleiðslusögu iðnaðarbæjarins mikla við Pollinn. Birtar voru myndir af sjampóbrúsum en síðar kom í ljós að sá sem talinn var hafa innihaldið umrætt tjörusjampó gerði það ekki. Hann hefur einhverra hluta vegna verið ranglega skráður á sínum tíma.
Rögnvaldur Bragi Rögnvaldsson, fyrrverandi starfsmaður Sjafnar, benti á eftir að fréttinni var deilt á Facebook, að flösu sjampóið hefði leyst tjörusjampóið af hólmi og væri í raun úr annarri vörulínu sem kom á markað eftir að verksmiðjan flutti úr Glerárgötu í Austursíðu.
Kopral flösu sjampóið - tjörusjampóið.
Sápu- og efnagerðin Sjöfn, sem stofnuð var 1932, var fyrst til húsa í Grófargili (sem nú er gjarnan kallað Listagil), síðan í Glerárgötu 28 en árið 1986 flutti starfsemin í nýtt stórhýsi við Austursíðu þar sem nú er verslunarmiðstöðin Norðurtorg.
Rögnvaldur Bragi segist hafa blandað sjampó í Grófargili í gamla daga; epla-, eggja- og appelsínusjampóið í 500 lítra kör, muni hann rétt, „en tjörusjampóið var blandað í 10 lítra fötu, það voru bara 3-4 karlar í Innbænum sem vildu þetta,“ skrifar Rögnvaldur, í léttum dúr eins og hans er von og vísa.
Minjasafnið á Akureyri tók við rekstri Iðnaðarsafnsins snemma á þessu ári og þar á bæ er mikill áhuga á því að eignast brúsa utan af títtnefndu tjörusjampói. Það yrði skemmtileg viðbót við safnskotinn.
- Ef einhver lumar á slíkum brúsa og er tilbúinn að láta hann af hendi má gjarnan hafa samband við Harald Þór Egilsson, safnstjóra Minjasafnsins á Akureyri – síminn á safninu er 462 4162 og netfangið minjasafnid@minjasafnid.is