Fara í efni
Safnkosturinn

Listasafnið: Pegasus Jónasar Viðars

SÖFNIN OKKAR – XIVFrá Listasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Jónas Viðar (1962-2013)
Pegasus, 1995
Blönduð tækni

Jónas Viðar stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri 1983–1987 og framhaldsnám við Accademia Di Belle Arti Di Carrara á Ítalíu 1990–1994, þar sem hann útskrifaðist með hæstu einkunn. Eftir nám flutti Jónas aftur til Akureyrar þar sem hann bjó til 2000, en þá söðlaði hann um og flutti til Reykjavíkur og vann þá nær eingöngu að myndlist. Jónas hélt yfir 40 einkasýningar á Íslandi og erlendis og tók þátt í fjölda samsýninga.

Verkið Pegasus eftir Jónas Viðar er frá 1995, unnið með blandaðri tækni þar sem Jónas vann fyrst bakgrunn og límdi síðan mynd af vængjuðu dýri á hann miðjan.

Verkið er unnið ári eftir að Jónas kemur úr námi á Ítalíu. Líklegt er að klassísk minni rómverskrar og grískrar menningar hafi verið honum ofarlega í huga, enda hafði hann um fjögurra ára skeið dvalið við uppsprettuna. Ef til vill uppsprettunnar sem rann undan hófum Pegasusar, en Pegasus er vera úr grískum goðsögum; vængjaður hestur sem var afkvæmi sjávarguðsins Pósedons og óvættarins Medúsu. Eitt af einkennum Pegasusar var einmitt að lindir spruttu upp undan hófum hans.

En Pegasus í mynd Jónasar, þar sem titillinn vísar beint í grísku goðsöguna, er ekki hestur heldur hundur. Myndmálið flækist því heldur betur fyrir áhorfandanum og ef hann hefur haldið að hann slyppi ódýrt frá þessum myndlestri þá er hér annað uppi á teningnum.

Í slavneskri þjóðsagnahefð eru til sögur af vængjuðum hundi, Semargi, sem á sér nóttina að eiginkonu og er einhverskonar náttúruvættur. Einnig eru til sögur af vængjuðu og blóðgrimmu hundunum, Hainu, í japönskum goðsögum, sem hafa þó þann eiginleika að geta tekið ástfóstri við manneskjur. Hvort Jónas Viðar leitaði svo djúpt og fræðilega til að blanda saman sagnaarfinum og sýna okkur fjölbreytni hans á myndfletinum skal ósagt látið. En ef til vill vakti það einungis fyrir honum að koma áhorfandanum á óvart og ögra þekkingu hans til þess að hann leiti einhverrar annarrar túlkunar en fæst beint upp úr hinni kunnu sögu um Pegasus.

Þannig eru töfrar myndlistarinnar. Hún er stöðugt að krefja áhorfandann um að blanda vitund sinni og skilningi saman við verk listamannsins og hljóta að launum upplifun, sem meira að segja er alger óþarfi að setja í orð eða greina eins og gert er í þessum texta.