Fara í efni
Safnkosturinn

Guðný Kristmannsdóttir og lykilverkið Play Me

SÖFNIN OKKAR – XXX

Frá Listasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Guðný Kristmannsdóttir
Play Me
Akrýl á striga
2023

Guðný Kristmannsdóttir (f. 1965) er uppalin í Reykjavík og Oxford í Englandi. Hún nam málaralist hjá Kristjáni Davíðssyni, en líkaði best að vinna í einrúmi, utan skólasvæðisins. Á fullorðinsárum hefur hún að mestu búið á Akureyri, fjarri listasenu höfuðborgarinnar. Það þýðir þó ekki að hún sé ómeðvituð um það sem er að gerast í listunum á Íslandi og víðar, en að vinna og búa í ákveðinni fjarlægð veitir henni frelsi til að fara eigin leiðir, hlusta vel og bregðast við innstu hugsunum sínum og hvötum. Viðfangsefni málverkanna byggir oft á myndmáli drauma.

Guðný Kristmannsdóttir við verkið Play Me á sýningunni, Kveikja, sem lauk nýverið á Listasafninu á Akureyri.

Listasafnið á Akureyri festi á dögunum kaup á lykilverki Guðnýjar, Play Me, af sýningu hennar Kveikja sem lauk nýverið á safninu. Verkið hlaut verðskuldaða athygli sem og sýningin sjálf. Á fundi Listasafnsráðs var einnig ákveðið að kaupa verk af myndlistarfólkinu Jónu Hlíf Halldórsdóttur og Magnúsi Helgasyni.

Pari Stave, listfræðingur, segir um Guðnýju: „Djarfar og kröftugar pensilstrokur bera ekki vitni um hvatvísi í stórfelldum málverkum listakonunnar, heldur birtast villtar og goðsagnakenndar skepnur upp úr löngu og meðvituðu ferli. Þykk upphleðsla lita, þunnar málningastrokur og hrár grunnur á yfirborði málverksins skapa kraftmiklar, en yfirvegaðar hliðstæður sem blása lífi í skepnurnar. Skapandi og hrekkjótt; gleði þeirra er smitandi.“