Fara í efni
Safnkosturinn

Dýrgripurinn Sólon Íslandus í Davíðshúsi

SÖFNIN OKKAR – XII
Frá Minjasafninu á Akureyri
_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Davíðshús, heimili skáldsins Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi, geymir margar gersemar. Ein þeirra er myndverk alþýðulistamannsins Sölva Helgasonar, Sólon Íslandus, sem Davíð leit á að væri sinn mesti dýrgripur. Það er því ekki tilviljun að myndin blasti við honum þegar hann sat við skrifborðið sitt. Stundum er talað um skyldar sálir. Kannski voru þeir Sölvi og Davíð líkir um margt og hann ólst upp við sögur af flakkaranum og ólíkindatólinu Sölva. Allavega var hann Davíð hugleikinn svo mjög að eina skáldsaga hans, Sólon Íslandus, fjallar um ævi Sölva. Bókin kom út 1940 og seldist feiknavel.

Sólon Íslandus, hin stórbrotna mynd eftir Sölva Helgason (1820-1895), er í raun samsett úr 29 pappírsbútum með blýantsteikningum og vatnslitum með blómamyndum, útflúri og einni mannsmynd. Verkið er óvenjulegt fyrir margra hluta sakir. Það er stærsta verk eftir Sölva, 128x128 cm, sem annars gerði smærri og fínlegri verk. Myndgrunnurinn er flókinn því þó það myndi eitt sjálfstætt verk er flæði milli hluta pappírsbrotanna, sem bendir til þess að Sölvi hafi sjálfur sett a.m.k. hluta myndanna saman. Í skýrslu Ranvers Hannessonar forvarðar frá 2000 segir að verkið hafi í upphafi verið styrkt á bakhlið með dagblöðum frá 1896 og bendi því til þess að verkið hafi verið fóðrað og sett saman í þetta heildarverk fáum árum eftir dauða Sölva.

Eitt af því sem gerir listaverkið sérstakt er mannsmyndin í henni. Því hefur verið haldið fram að hún sé í raun sjálfsmynd Sölva. Hvort það sé rétt er erfitt að segja en hefur örugglega verið sú mynd af Sölva sem Davíð teiknar upp með orðum sínum í Sólon Íslandus.

Reyndar er lýsing Hólmfríðar Hjaltason í endurminningum sínum Tvennir tímar (1949) á Sölva ekki ólík þeirri mannsmynd sem finna má í verkinu í Davíðshúsi. „Sölvi hafði ljóst hár og sítt skegg, og sló gullnum lit á bæði hár hans og skegg. Var hárið sérlega fallegt og vel hirt. Hann var inneygur og voru augun lítil, hvöss og leiftrandi.“

Hvernig Davíð eignaðist verkið er ekki alveg ljóst. Persónuleg gögn Davíðs verða óaðgengileg um nokkra áratugi enn og því ekki hægt að skoða dagbækur eða aðrar skriflegar heimildir hans um þetta magnaða listaverk. Davíð var mikill bókasafnari og áskotnaðist oft annað en bækur á ferðum sínum um sveitirnar. Eitt af því sem hann hafði áhuga á voru verk Sölva og eru til fáein úrklippuverk í Davíðshúsi auk þessa óvenju stóra verks eftir Sölva Helgason.

  • Á bakhlið sumra arkanna er texti t.d. með rithönd Sölva, hluti sendibréfa, lóðaseðill og reikningur dagsettur 1866. Nokkur áhugaverð sýnishorn hér að neðan.