Fara í efni
Safnkosturinn

Birkifræsöfnun í Reykhúsaskógi í dag

Konurnar í Lionsklúbbnum Sif afhenda fræbox við Hælið kl. 17 til 20 í dag. Myndirnar með fréttinni eru af Facebook-síðu Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Landsátak um söfnun birkifræja sem samtökin Land og skógur standa að ásamt Skógræktarfélögum, Lionshreyfingunni og fleirum hefst formlega í dag, á degi íslenskrar náttúru. Átakið Söfnum og sáum birkifræi hefur staðið yfir frá árinu 2020. 

Hér á svæðinu eru það konurnar í Lionsklúbbnum Sif í Eyjafjarðarsveit sem ríða á vaðið og bjóða til frætínslu í Reykhúsaskógi í dag kl. 17-19, líkt og þær hafa gert undanfarin ár á degi íslenskrar náttúru. Lionskonur afhenda fræbox á planinu við Hælið milli kl. 17 og 20 þar sem heimasætan María Pálsdóttir ræður ríkjum, og benda í leiðinni á að upplagt sé að kíkja við á safninu. Birkifræsöfnunin í Reykhúsaskógi er samstarfsverkefni Lionsklúbbsins Sifjar, Skógræktarfélags Eyfirðinga og skógarbænda í Reykhúsum.

Fram kemur í umfjöllun á vefsíðunni Land og skógur að árið sé gott hvað varðar birkifræ um allt land og það sé nokkuð óvenjulegt því gjarnan sé fræmyndun á birki mjög misjöfn á landinu frá ári til árs. 

Skógræktarfélag Eyfirðinga spyr á Facebook-síðu sinni: „Er vaxtaokrið að sliga þig?“ Og þar er líka svarið: „Gakktu þá í Birkibankann! Enginn yfirdráttur, engir stýrivexxtir, bara heiðarlegur trjávöxtur og laufkrónur.“ 

Hér er um að ræða upplagða samverustund fyrir alla fjölskylduna og er öllum velkomið að mæta og taka þátt í fræsöfnuninni.