Fara í efni
Safnkosturinn

Saga Gagnfræðaskólans á Akureyri 1906

SÖFNIN OKKAR – XVIFrá Héraðsskjalasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Nýlega fengum við eftirfarandi bréf (nokkuð stytt):

Komið þið sæl hjá Héraðsskjalasafninu á Akureyri. Ég hef í mínum fórum handskrifaða bók sem heitir „Saga Gagnfræðaskólans á Akureyri 1906 – samin af „Félagi Norðlenzkra Gagnfræðinga“ í Reykjavík. Félagið var stofnað 6. nóv. 1911. Var það ákveðið í lögum þess að semja sögu Gagnfræðaskólans á Akureyri frá árinu 1906 er hin nýja reglugerð hans hafði öðlast fullt gildi. Þessa félags er getið í sögu Menntaskólans á Akureyri 1880-1980 1. b. bls. 173. Bókin er í nokkuð stóru broti, síðustærð 20,5x32cm, og inniheldur um 70 þéttskrifaðar síður. Fremst í bókinni hafa verið skildar eftir margar óskrifaðar síður, síðan taka við um 50 síður um sögu skólans o.fl., þá aftur margar óskrifaðar síður en að lokum eru um 20 síður sem bera yfirskriftina „Heimavistirnar 1911 – 12“. Ekki varð meira úr skrifum um Gagnfræðaskólann í þessa bók. Ástæða þess að bókin hefur dagað uppi í minni fjölskyldu er sú að afi minn skrifaði þessar síðustu 20 síður bókarinnar. Afi minn var Jón Árnason frá Garði í Mývatnssveit en hann var héraðslæknir í Öxarfjarðarhéraði með aðsetur á Kópaskeri frá árinu 1921 og þar til hann lést árið 1944 aðeins 54 ára að aldri. Afi var bróðir Þuru í Garði. Hann var stundum kenndur við Garð, kallaði sig Jón Árnason Garðar og þannig skrifar hann undir þessar 20 síður í bókinni. Amma hefur síðan haldið í bókina og látið hana ganga áfram til pabba. Mamma hefur svo haldið í bókina eftir fráfall pabba fyrir fjórum áratugum og fannst bókin við yfirferð á hennar dánarbúi fyrir 2 árum. Augljóst að fjölskyldan hefur viðhaldið þeirri stefnu að „aldrei að henda“. Nú hafa mínir forfeður sennilega haft þessa bók í sínum fórum í c.a. 110 ár og ég tel engar líkur á að mínir afkomendur hafi áhuga á að varðveita hana til framtíðar. Mín spurning til ykkar hjá Héraðsskjalasafninu á Akureyri er því hvort þið hafið áhuga á að eignast þessa bók? Kveðja, Jón Þór Árnason

Vissulega stóðumst við ekki þetta góða boð og tókum við bókinni þegar Jón Þór heimsótti okkur núna í febrúar. Bókin fékk afhendingarnúmerið 2024/10 og verður fljótlega skráð og fundinn staður í geymslunni. Afhendingarnúmer (stundum kallað aðfanganúmer) samanstendur af tveimur tölum, annars vegar er það ártalið og hins vegar hlaupandi tala sem afhendingin fær þegar hún kemur í hús. Afhendingarnúmerið 2024/10 segir okkur því að umrædd bók hafi verið 10. afhendingin til safnsins á þessu ári.