Risakýrin Edda
Sigur, EM lágmark og met: „Frábær tilfinning“
10.02.2025 kl. 11:30
![](/static/news/lg/baldvin-og-ingabrigsen-2.jpg)
Baldvin Þór Magnússon og Filip Ingebrigsten á lokasprettinum í 3000 metra hlaupinu í Finnlandi í gær. Mynd: Marta María
„Þetta var frábær tilfinning,“ segir hlauparinn Baldvin Þór Magnússon við Akureyri.net um augnablikið í gær þegar hann varð Norðurlandameistari í 3.000 metra hlaupi innanhúss í Espoo í Finnlandi, stórbætti um leið eigið Íslandsmet og það sem skipti hann mestu máli í raun: Baldvin náði lágmarki fyrir Evrópumeistaramótið innanhúss sem fram fer í Hollandi í næsta mánuði.
„Ég var mjög stutt frá lágmarki fyrir Evrópumeistaramótið í fyrra en náði ekki inn þá og þess vegna var tilfinningin núna enn betri en ella, með það í huga,“ sagði hlauparinn.
Baldvin segir uppbygginguna fyrir keppnistímabilið hafa gengið mjög vel, „en það er ekkert sjálfgefið að allt komi saman á réttum tíma,“ segir hann og vísar til hlaupsins í gær. Hérinn – hlauparinn sem sér um að halda uppi hæfilegum hraða framan af hlaupi – stóð sig feykilega vel í gær og Baldvin bætti Íslandsmet sitt um tæpar sex sekúndur.
Hlauparinn snjalli er sérstaklega ánægður með að ná lágmarkinu svona snemma því „nú hef ég tíma til að undirbúa mig vel fyrir EM.“
Gaman er að geta þess að Baldvin Þór hljóp á betri tíma en gullverðlaunahfar fjögurra síðustu Evrópumóta innanhúss. Sigurvegari þriggja síðustu móta varð hinn frábæri Jakob Ingebrigsten, yngri bróðir Filips sem varð annar í Espoo í gær. Jakob verður á meðal keppenda í 3000 m á EM í Apeldoorn í Hollandi í mars.
Hlaup sem þessi eru oft taktísk, tíminn segir því ekki allt heldur er sigurinn á EM það eina sem skiptir máli – en þessi staðreynd er sannarlega skemmtileg.
- Tími Baldvins í gær: 7:39,94
Sigurvegarar síðustu fjögurra Evrópumóta:
- 2017 – Adel Mechaal, Spáni 8:00,60
- 2019 – Jakob Ingebrigsten Noregi 7:56,15
- 2021 – Jakob Ingebrigtsen 7:48,20
- 2023 – Jakob Ingebrigsten 7:40,32
- Mótsmetið á Ali Kaya frá Tyrklandi, hann hljóp á 7:38.42, mín. árið 2015 þegar EM fór fram í Prag.
Akureyri.net í gær: Íslandsmet og Baldvin Norðurlandameistari
Baldvin Þór fyrstur og Filip Ingabrigsten annar í 3000 m hlaupinu í gær. Sá gulklæddi er Simon Sundström frá Svíþjóð sem varð í þriðja sæti á 7:45,99 mín. Mynd: Marta María.