Fara í efni
Risakýrin Edda

Hóllinn sá hefur sögu að geyma

Sólgarður til vinstri, Saurbæjarkirkja og Saurbær, séð frá nafnlausa hólnum sem er vettvangur sögunnar sem hér er sögð. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Hóll nokkur norðan við Sólgarð í Eyjafjarðarsveit hefur að geyma sögu eða leyndardóm sem fáir vita af eða kunna skýringu á. Saga frá áttunda áratug liðinnar aldar rifjaðist upp fyrir fyrrverandi bónda og ýtumanni þar fremra þegar hugað var að framtíðarheimkynnum risakýrinnar Eddu.

Hið stórbrotna listaverk Edda, þriggja metra há kýr úr járni og víravirki, stendur heima á hlaði hjá skapara sínum, eldsmiðnum Beate Stormo. Ferðamálafélag Eyjafjarðarsveitar fékk Beate til verksins og safnaði fé sem fór að líkindum mest í efniskostnað en minnst í laun til listakonunnar. Kýrin sjálf er listasmíð og stórvirki og hefur meðal annars að geyma borða með textum úr ljóðum og sögum um kýr. En það er ekki sagan sem ætlunin er að segja hér.


Hvar fær kýrin Edda að standa? Skapari kýrinnar, Beate Stormo, horfir hér stolt á listaverkið. 

Hlutverki Ferðamálafélagsins og listakonunnar er í raun lokið og sveitarfélagið tekur við verkefninu, að koma listaverkinu fyrir. Hóllinn sem er miðpunktur sögunnar sem hér verður sögð stendur norðan við Sólgarð, fyrrum félagsheimili íbúa Saurbæjarhrepps sem hýst hefur Smámunasafn Sverris Hermannssonar um árabil. Hóllinn er rétt norðan við heimreiðina að Saurbæ. Þar hefur koma kýrinnar til framtíðardvalar verið undirbúin, malarstígur upp á hólinn og steyptar undirstöður í takt við fótaburð Eddu. Frekari frágangur þó eftir við brú og tengingu við bílastæðið við Sólgarð. Styttist þó í að Edda verði færð á stall.

En hóllinn sá hefur aðra og lítt þekkta sögu að geyma. 


Uppi á nafnlausa hólnum, séð til suðausturs, Sólgarður lengst til hægri á myndinni. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Ýtumaður í vegavinnu

Örnólfur Eiríksson frá Arnarfelli, lengi bóndi í Hólakoti í Saurbæjarhreppi, starfaði sem ýtumaður hjá Ræktunarsambandi Saurbæjar- og Hrafnagilshrepps í fimm ár á áttunda áratug liðinnar aldar. Þegar hann heyrði af risakúnni Eddu og hvar henni yrði mögulega komið fyrir rifjuðust upp fyrir honum atburðir frá 1976. Hann var þá við vegavinnu í tengslum við brúarsmíði á þremur ám þar fremra, Djúpadalsá, Skjóldalsá og Finnastaðaá. 


Örnólfur Eiríksson frá Arnarfelli, vann sem ýtumaður hjá Ræktunarsambandi Saurbæjar- og Hrafnagilshrepps og lenti í því 1976 að ýta jarðvegi ofan af mannabeinum á hól sem nú stendur til að verði framtíðarheimili járnkýrinnar Eddu. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Hann var þá við vinnu á jarðýtunni með vegavinnuflokki sem lagði veg milli þessara þriggja brúa sem byggðar voru á sama tíma. „Þá var ákveðið að leggja nýja heimreið að Saurbæ, norðan við Sólgarð, og ég var fenginn í það verkefni,segir Örnólfur þegar Akureyri.net bað hann um að rifja upp söguna sem tengist hólnum, þar sem framtíðarheikynni kýrinnar Eddu hafa verið undirbúin.

Örnólfur var þá á ýtunni að ýta upp fyrir veginum og meðal annars að taka efni ofan af áðurnefndum hól sem nýta skyldi í vegagerðina. Ég var bara einn þarna að ýta og vegaverkstjórinn, Brynjólfur Jónsson, kallaður Binni, var að sýna mér hvað ég ætti að gera. Ég er búinn að ýta þarna töluverðu og allt í einu tek ég efitr því, og hálfbrá við, að út undan tannarendanum skoppaði hauskúpa. Ég sá strax að þetta var ekki af einhverri skepnu.


Saurbær, Saurbæjarkirkja og heimreiðin sem Örnólfur vann við á ýtunni á sínum tíma. Mynd: Haraldur Ingólfsson

Laginn með tönnina

Örnólfur stoppaði og kannaði aðstæður, sá strax að þetta var hauskúpa af manni og tekur þá eftir fleiri beinum á dreif í moldinni þar sem hann hafði verið að ýta. Ég gekk þarna um og uppi á hólnum sé ég tvær beinagrindur liggja. Ég hafði skafið jarðveginn ofan af þeim, en þær voru bara alveg óhreyfðar hlið við hlið. Það hafði verið grunnt grafið, svona um 50 sentímetrar ofan á þetta, sendin og þurr mold. Þetta geymist vel þarna í þessum þurrki.

Örnólfur gerði Brynjólfi verkstjóra viðvart og þeir skoðuðu þetta ásamt Daníel Sveinbjörnssyni í Saurbæ, sem sinnti margvíslegum störfum, var hreppsstjóri, bóndi, umsjónarmaður með Saurbæjarkirkju og fleira. Daníel hafði búið lengi í Saurbæ, tók við búi þar af foreldrum sínum, en hann þekkti ekki til þess né hafði heyrt um að þarna væru mannabein. 

Örnólfur segir þetta hafa verið fjórar beinagrindur, tvær óhreyfðar, sem hann hafi eiginlega ekkert skemmt og svo tvær hauskúpur sem komu upp úr moldinni þar sem hann hafði ýtt. „Það gætu hafa verið fleiri því þetta var sunnantil í hólnum og ég hreyfði ekkert við neinu lengra í norður. Við ákváðum að láta það vera. Önnur beinagrindin sem var þarna og ég hafði skafið ofan af, ég skóf af tilviljun svo nákvæmlega ofan af beinunum að þetta hreyfðist ekkert, en það eina sem ég skemmdi var að ég hafði skafið ennisbeinið af með tönninni. Þeir voru að virða þetta fyrir sér Daníel og Brynjólfur og hældu mér mikið fyrir hvað ég var laginn með tönnina, að taka þetta svona nákvæmlega.“

Á morgun:

  • Tíndu beinin í tvo strigapoka