Fara í efni
Risakýrin Edda

Höfðar gamaldags brauð til eldra fólks?

Notar Miðflokkurinn gamaldags bakkelsi í því skyni að ná til eldri kjósenda? Getur Framsóknarflokkurinn myndað þriggja flokka stjórn með Samfylkingu og Viðreisn?

Grétar Þór Eyþórsson, stjórnmálafræðingur og prófessor við viðskiptadeild Háskólans á Akureyri (HA) er nýjasti viðmælandi deildarforsetans, Sigurðar Ragnarssonar, sem stjórnar hlaðvarpinu Forysta og samskipti og prófessorinn nefnir m.a. þetta tvennt í upphafssetningunni; hann telur að með því að nota brauðtertur, flatkökur með hangikjöti, pönnukökur og kleinur í kynningarefni sínu reyni Miðflokkurinn að höfða til eldri kynslóðarinnar.

Víða er komið við, þeir ræða m.a. Trump-dans sem farinn er að sjást víða, Sigurður lofar þó ekki danskennslu að þessu sinni – en kannski síðar!

Sigurður Ragnarsson, til vinstri, og Grétar Þór Eyþórsson.

Tæpt ár er síðan fyrsti þáttur þessarar fyrstu hlaðvarpsseríu háskólans var sendur út, umfjöllunarefnið er fjölbreytt en í nýjasta þættinum er farið yfir alþingiskosningarnar fram undan – sérstaklega út frá forystu og hvernig forystan birtist með ólíkum hætti hjá flokkum og frambjóðendum. Einnig er komið inn á samskipti og kynningar í tengslum við kosningarnar og að lokum er stuttlega farið yfir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Þar ræða þeir félagar meðal annars hvers vegna Trump hafi sigrað.

Í þættinum ýjar Grétar að þessu með Framsóknarflokkinn, Samfylkingu og Viðreisn. Útlit er fyrir að tveir síðastnefndu flokkarnir fái mesta fylgið en að þeir þurfi þriðja flokkinn með sér til að mynda stjórn. Grétar telur samt að möguleg kosning um umsókn um aðild að Evrópusambandinu geti fælt Framsóknarflokkinn frá.

  • Smellið hér til þess að horfa og hlusta á þáttinn á youtube
  • Smellið hér til að hlusta á áttinn á Spotify

Viðskiptadeild HA á Facebook