Fara í efni
Risakýrin Edda

Einn gervigrasvöllur á við 52 einbýlishús

Heita vatnið sem fer í að halda einum gervigrasvelli snjólausum er svipað og meðalnotkun fyrir 52 einbýlishús. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Einn gervigrasvöllur er ígildi um 52ja einbýlishúsa á ársgrundvelli þegar kemur að notkun á heitu vatni. Gera má ráð fyrir að notkun á heitu vatni fyrir einn völl sé um 14-15% af notkun Akureyrarlaugar á ársgrundvelli. Notkun sundlaugarinnar dreifist á allt árið, en notkun gervigrasvallanna er á þeim árstíma sem mest álag er á hitaveitunni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari Norðurorku við fyrirspurn frá Akureyri.net um uppbyggingu gervigrassvæða og notkun á heitu vatni. 


Akureyrarlaug að vetri. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Í tengslum við uppbyggingu gervigrasvalla utanhúss, sem nú eru orðnir tveir á KA-svæðinu og sá þriðji væntanlegur á Þórssvæðinu, auk sparkvallanna við alla grunnskóla bæjarins hafa orðið háværari raddir um gríðarlega notkun á heitu vatni til að halda völlunum auðum yfir vetrartímann, jafnvel sóun á heitu vatni hjá hitaveitu sem stendur frammi fyrir alls konar áskorunum við öflun á heitu vatni á sama tíma og notkun á heitu vatni eykst mun hraðar en íbúunum fjölgar.

Upphituð bílastæði, heitir pottar, gervigrasvellir

Akureyri.net fjallaði síðastliðið haust um hitaveitumálin frá ýmsum hliðum, meðal annars áskoranir sem Norðurorka stendur frammi fyrir í kapphlaupi við að anna eftirspurn. Á meðan hitaveitur á öðrum stöðum á landinu hafa lent í erfiðleikum og til dæmis hefur þurft að loka sundlaugum hefur það sloppið til hér á Akureyri – enn sem komið er. Stöðugt aukin notkun á hvern íbúa, meðal annars með mikilli fjölgun upphitaðra bílastæða og heitra potta, svo dæmi sé tekið, veldur þó álagi sem bregðast þarf við. Í langvarandi kuldakasti getur komið til þess að stórnotendur fái tilkynningu um að skerða þurfi afhendingu á heitu vatni til þeirra, jafnframt því að farið er fram á að viðkomandi fari sparlega með heita vatnið. .

En það eru ekki aðeins bílastæði og heitir pottar sem eiga hlut í aukinni notkun. Upphituðum gervigrasvöllum hefur fjölgað og er að fjölga. Stutt er í að þrír slíkir verði komnir í fulla notkun hér á Akureyri, auk sparkvallanna við grunnskólana. Sparkvellirnir jafnast gróft áætlað að flatarmáli á við einn fótboltavöll í fullri stærð. Það er því áhugavert að velta fyrir sér notkun á heitu vatni fyrir þessa velli og setja í samhengi við aðra notkun, til dæmis sundlaugar.

Þrír vellir eins og 156 einbýlishús

Stefán H. Steindórsson, sviðsstjóri veitu- og tæknisviðs Norðurorku, segir í svari við fyrirspurn frá Akureyri.net að út frá reynslutölum megi gera ráð fyrir að einn gervigrasvöllur noti um 40 þúsund rúmmetra af heitu vatni á ári. Meðalstórt einbýlishús notar um 700 rúmmetra þannig að einn slíkur völlur er ígildi um 52ja einbýlishúsa á ársgrundvelli, að sögn Stefáns. „Gera má því ráð fyrir að allir þrír vellirnir noti í framtíðinni samtals um það bil 120.000 rúmmetra af heitu vatni á ári sem jafngildir heitavatnsnotkun fyrir 156 einbýlishús. Gera má ráð fyrir að notkun hvers gervigrasvallar sé um 14-15% af notkun Akureyrarlaugar á ársgrundvelli. En á meðan heitavatnsnotkun sundlaugarinnar dreifist yfir allt árið þá er heitavatnsnotkun gervigrasvalla öll á vetrarmánuðum, þegar mest álag er á veitunni,“ segir Stefán.

Norðurorka hefur hins vegar ekki beinlínis með í ráðum þegar ákvarðanir eru teknar um að byggja upp gervigrasvelli, að öðru leyti en í gegnum umsagnir um skipulag. 


Loftmynd sem sýnir hvar væntanlegur gervigrasvöllur á Þórssvæðinu verður staðsettur. Fótboltavöllur í fullri stærð ásamt öryggissvæði og 2.800 fermetra æfingasvæði við enda vallarins. Neðst í vinstra horninu má sjá sparkvöllinn við Glerárskóla og körfuboltavöllinn Garðinn hans Gústa. 

Getur komið til skerðingar

En mega íþróttafélögin þá búast við að fá ekki afhent það magn af heitu vatni sem þarf til að halda gervigrasvöllum auðum alla daga vetrarins, til dæmis þegar birgðir minnka og/eða þegar koma langir frostakaflar?

„Hvort sem um er að ræða fyrirbyggjandi aðgerðir eða bráðaaðgerðir vegna rekstrartruflana þá er eðlilegt að horfa fyrst til stórnotenda, þurfi að koma til skerðingar. Ákvarðanir um slíkt eru teknar samkvæmt því sem fram kemur í viðbragðsáætlun hitaveitu. Gildir þá einu hvort um sé að ræða snjóbræðslu, sundlaugar eða upphitaða fótboltavelli,“ segir Stefán H. Steinþórsson, sviðsstjóri veitu- og tæknisviðs Norðurorku.